Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 13:31:45 (433)

2001-10-11 13:31:45# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[13:31]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Ég var að fjalla í ræðu minni um aukafjárveitingu til utanrrn. í tengslum við fyrirhugaðan fund NATO hér á næsta ári, en gert er ráð fyrir 30 millj. kr. framlagi samkvæmt þessu frv. En við nánari skoðun á þessu máli kemur í ljós að í fjárlagafrv. fyrir komandi ár er gert ráð fyrir 170 millj. kr. fjárveitingu vegna þessa fundar NATO hér næsta vor. Hér segir að þetta sé tímabundin fjárveiting í eitt ár vegna utanríkisráðherrafundar NATO og samstarfsríkja þess sem ákveðið er að halda á Íslandi vorið 2002. Áætlunin er ekki endanleg. Skyldi hér vera um að ræða hálfsmánaðarfund eða vikufund? Nei, við erum að tala um tveggja daga fund sem við erum núna beðin um að samþykkja aukafjárveitingu fyrir upp á 30 millj. og samkvæmt fjárlagafrv. upp á 170 millj., upp á 200 millj. kr. vegna undirbúnings. Og það segir í fjárlagafrv. að endanlegar áætlanir liggi ekki fyrir.

En hverjar eru líkurnar, hver eru líkindin? Erum við að tala um 300 millj.? Erum við að tala um 400 millj.? Erum við e.t.v. að tala um hálfan milljarð vegna þessa fundar NATO hér næsta vor? Og í hverju er þessi undirbúningur fólginn og í hvað fara þessir peningar skattgreiðenda? Borgar þetta fólk ekki sjálft undir sig hótelkostnaðinn? Í hvað fara þessi hundruð millj. kr. vegna tveggja daga fundar NATO hér næsta vor? Það er ætlast til þess að við samþykkjum núna 30 millj., að við samþykkjum 170 millj. við afgreiðslu fjárlaga og jafnframt er tekið fram að endanlegar áætlanir liggi ekki fyrir. Mér finnst þetta, herra forseti, fullkomið ábyrgðarleysi og ég lýsi mikilli andstöðu við það að skattpeningum sé varið til þessa fundar.

Ég held áfram að fara yfir frv. til fjáraukalaga. Ég staðnæmist næst undir liðnum dóms- og kirkjumálaráðuneyti, við Stjórnartíðindi. Þar er lagt til að framlag til Stjórnartíðinda verði hækkað um 6 millj. kr.

,,Á grundvelli álitsgerðar starfshóps um lögleiðingu EES-gerða var samþykkt í ríkisstjórn fyrr á þessu ári að birting EES-samningsins á netinu verði flutt frá utanríkisráðuneytinu til Stjórnartíðinda sem fái sérstaka fjárveitingu að fjárhæð 6 millj. kr. ...``

Þetta kom til umfjöllunar á þingi sl. vor. Þá var talað um að setja þessar gerðir yfir í rafrænt form því að í því mundi felast mikill sparnaður. Þannig var um þetta rætt og höfðu ýmsir uppi við það mótmæli að lög og reglur væri ekki að finna hér í rituðu máli. En þetta var samþykkt. En nú spyr ég: Var ekki gert ráð fyrir því að af þessu yrði sparnaður? Var það ekki markmiðið með þessari breytingu? En nú segir að ekki sé gert ráð fyrir að útgjöld utanrrn. lækki við flutning þessa verkefnis yfir til dómsmrn. Ég vil vekja á þessu sérstaka athygli við þessa umræðu.

Ég staldra hér við Atvinnuleysistryggingasjóð. Ég ætla ekki að fara um hann mörgum orðum. Gert er ráð fyrir því að lækka framlagið til hans í ljósi þess að menn gera ráð fyrir heldur minna atvinnuleysi en í fyrri spám. Er það vissulega vel. Menn ætla, samkvæmt þeim upplýsingum sem hér er að finna, að hvert prósentustig, hvert atvinnuleysisstig kosti um 900 millj. kr., en menn ætla að atvinnuleysi verði að meðaltali 1,4% en ekki 1,8%. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki einmitt sjóður sem eigi að líta á sem sjóð í stað þess að hafa þarna gegnumstreymisfjármagn. Við höfum í seinni tíð verið að setja alls kyns verkefni undir þann gjaldstofn, þann tekjustofn sem Atvinnuleysistryggingasjóður reiðir sig á, fæðingarorlofið svo dæmi sé tekið og aðra þætti. Ég vildi rétt aðeins vekja máls á þessu.

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands fær 61,9 millj. kr. og er það vel vegna þess að þetta er stofnun sem hefur verið í miklu fjársvelti og hefur það oft verið gagnrýnt á Alþingi að ekki skuli búið betur að þessari stofnun enda biðlistar langir og er það staðfest í greinargerð með frv. að skjólstæðingar stofnunarinnar hafi þurft að bíða í yfir ár eftir þjónustu. En síðan segir hér, með leyfi forseta:

,,Stjórnendur stofnunarinnar hafa aukið skuldina við Ríkiskaup sem sér um innkaup á heyrnartækjum.``

Og þá er vísað í fyrri skuld sem vikið er að fyrr í greinargerðinni. Stjórnendur stofnunarinnar hafa aukið við skuldina hjá Ríkiskaupum. Staðreyndin er sú að þessari stofnun hefur verið skammtað of naumt, of litlir fjármunir. Þess vegna hafa orðið til biðlistar. Við höfum vakið máls á þessu og það komu fram tillögur, ef ég man rétt, við afgreiðslu síðustu fjárlaga um aukið framlag til þessarar starfsemi.

Ég staðnæmist næst við iðnaðarráðuneyti. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Farið er fram á að 45 millj. kr. framlag vegna kostnaðar af undirbúningsvinnu Fjárfestingarstofnunar við uppbyggingu stóriðju. Þar vegur þyngst undirbúningur Reyðaráls í mati á umhverfisáhrifum álvers í Reyðarfirði. Auk þess er um að ræða kostnað við kynningarstarf og vegna undirbúnings samningagerðar.``

Hér er verið að tala um 45 millj. kr. Er ekki Reyðarál einkafyrirtæki? Er það ekki Reyðarál og fjárfestar sem að því koma sem eiga að standa straum af þessum kostnaði? Ég spyr. Ætlar ríkissjóður að greiða allan þennan kostnað? Er það svona sem á að glansfæra tölurnar í tengslum við stóriðjuáform stjórnvalda, þ.e. að láta ríkissjóð taka á sig verkefni og kostnað sem eiga að heyra undir aðra aðila? Er þetta eðlilegt? Ég vildi gjarnan fá við þessu svör.

Ég staðnæmist við Náttúrufræðistofnun Íslands. Því hefur oft verið hreyft á Alþingi að ekki sé nægilega vel búið að þeirri stofnun. Sannast sagna rekur mann í rogastans þegar í ljós kemur að óskað er eftir 13 millj. kr. aukafjárveitingu, m.a. til að fjármagna leiguhúsnæði sem stofnunin ætlar að taka undir sýningargripi væntanlega, inni í Súðarvogi.

Er þetta ekki stofnun sem á að vera opin almenningi? Á hún ekki að hafa yfir að ráða húsnæði fyrir sitt safn sem á að vera opið almenningi? Þótt ég telji það hið besta mál að samþykkja þessa aukafjárveitingu þá hefði ég kosið að tekið væri heildstætt á málefnum þessarar stofnunar á fjárlögum Alþingis. Það er mergurinn málsins, herra forseti, að við erum hér að fjalla um ýmsa þætti og ýmsa liði sem eiga heima á fjárlögum en ekki í fjáraukalögum, sem eiga fyrst og fremst að taka á tilfallandi og ófyrirséðri útgjaldaaukningu.

Í því sambandi langar mig að lokum að staðnæmast við einn lið undir umhverfisráðuneyti. Hann heitir einfaldlega Ýmis verkefni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Núpsstaður í Skaftárhreppi er talinn merkilegur staður bæði vegna náttúrufars og menningarverðmæta. Þar hefur lengi verið búið með fornum hætti og hús þar flest með fornu sniði. Í samræmi við ríkisstjórnarsamþykkt frá 28. september 1999, um að skipuð skyldi nefnd til að undirbúa kaup ríkisins á jörð og húsum að Núpsstað í því skyni að vernda þau verðmæti sem þar er að finna, er hér gerð tillaga um 2 millj. kr. aukafjárveitingu til starfsemi nefndarinnar.``

Þetta er eflaust hið besta mál þótt ég hafi ekki kynnt mér það til hlítar. En ég spyr: Á svona lagað heima í fjáraukalögum? Það er vísað í ríkisstjórnarsamþykkt frá árinu 1999 og farið fram á það að í fjáraukalögum samþykkjum við 2 millj. kr. fjárveitingu til þessa verkefnis. Ég vil taka það fram að ég er ekki að leggjast gegn því, síður en svo. Ég er að leggjast gegn vinnubrögðum af þessu tagi. Mér finnst þau ekki í samræmi við þær hugmyndir sem fjáraukalög eiga að vera reist á.