Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:21:32 (440)

2001-10-11 14:21:32# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétri H. Blöndal vaxa í augum vaxandi skuldbindingar ríkissjóðs vegna lífeyrisgreiðslna, sérstaklega í þeim hluta lífeyrissjóðsins sem nú hefur lokað með lögum og er á leiðinni í sólarlagið, því að það er á þann hluta lífeyrisskuldbindinganna sem kjarasamningar hafa fyrst og fremst áhrif.

Hv. þm. segir að þessum útgjaldaauka eigi að mæta með kröftugum niðurskurði, þó án þess að skerða þjónustu. Hvað vill hv. þm. skera niður? Vill hann sameinast mér í því að fella tillögur um að verja 30 millj. kr. til undirbúnings á NATO-ráðstefnu næsta vor sem ráðgert er að verja 170 millj. kr. til aukalega á fjárlögum, og er þar ekki séð fyrir endann á útgjöldunum? Sumir ætla að þar kunni að verða 300--400 millj. kr. kostnaður, jafnvel nefna menn 500 millj. kr. Er hann tilbúinn að byrja þarna og fella þennan útgjaldalið niður? Hvar er það sem hv. þm. vill skera niður án þess að skerða þjónustu? Drýgstur hluti útgjalda ríkisins gengur til fjármögnunar á velferðarþjónustunni. Þar vega þyngst rekstrargjöldin sem eru launakostnaður. Vill hv. þm. fækka fólki á sjúkrahúsum landsins? Vill hann fækka í kennarastéttinni eða er þetta bara innantómt og ábyrgðarlaust tal?