Fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:26:20 (443)

2001-10-11 14:26:20# 127. lþ. 9.1 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. virðist leggja útgjöld ríkisins að jöfnu við útgjöld velferðarkerfisins. Það er ekki aldeilis rétt. Ég tel það langt í frá. Hluti, og hann stór, af útgjöldum ríkisins fer til velferðarkerfisins en hluti af því fer örugglega ekki til NATO.

Svo segir hann að ég sé talsmaður Sjálfstfl. Ég er ekki talsmaður eins eða neins nema sjálfs mín. Ég tala aldrei um að ,,við sjálfstæðismenn`` höfum þessa og þessa skoðun eins og hv. þm. segir iðulega. Þeir eru bara með eina skoðun og eina sál, margir þessara vinstri manna. (ÖJ: Í atkvæðagreiðslum eru þeir ...) Ónei, ekki heldur. Það sem ég var að segja að ... (Gripið fram í.) Herra forseti. Gæti ég fengið frið til að halda ræðuna? Það sem ég var að segja er að nákvæmlega eins og atvinnulífið hefur í áratug þurft að hagræða og framleiða meira með færra fólki vil ég gera þá sömu kröfu til hins opinbera, til opinberra starfsmanna. Þegar ég segi að það eigi að fækka fólki hjá hinu opinbera og minnka þannig útgjöld á skattgreiðendur því allt er þetta greitt með sköttum --- hver einasta króna í launum opinberra starfsmanna er greidd með sköttum --- þá er ég að segja að skipuleggja eigi störfin þannig að vinnan verði minni á hvern mann og færra fólk þurfi til þess að framleiða meiri vöru, meiri velferð. Þetta er þekkt í einkageiranum. Þetta verða menn að gera, herra forseti. En það er eins og hv. þm. geti ekki séð fyrir sér að opinberir starfsmenn geti unnið vel og skipulega.