Rafræn eignarskráning verðbréfa

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:28:43 (444)

2001-10-11 14:28:43# 127. lþ. 9.3 fundur 132. mál: #A rafræn eignarskráning verðbréfa# (skráning bréfa erlendis) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:28]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, á fyrirliggjandi þingskjali.

Rafræn skráning verðbréfa á Íslandi hófst aðeins fyrir rétt um það bil 16 mánuðum en fyrsta rafbréfið á Íslandi var skráð 13. júní í fyrra. Á þeim tíma sem liðinn er hafa verið skráð með rafrænum hætti íslensk verðbréf að andvirði um það bil 800 milljarða íslenskra króna að markaðsvirði. Nánar skiptist það þannig að um 350 milljarðar eru hlutabréf en um 450 milljarðar eru skuldabréf. Fyrir næstu áramót verður búið að skrá rafrænt um það bil 95% af öllum útgefnum markaðsverðbréfum í landinu. Jafnframt hefur á undanförnum árum verið lögð nokkur áhersla af hálfu ýmissa aðila á að kynna erlendum fjárfestum tækifæri sem bjóðast til fjárfestinga í íslenskum verðbréfum. Forsenda þess að betur megi gera í þeim efnum er að unnt sé samkvæmt lögum að bjóða hluta af útgefnum verðbréfaflokki til sölu erlendis.

Í viðskiptum með rafbréf er það yfirleitt gert með þeim hætti að útgefendur ákveða að flytja ákveðinn hluta útgáfunnar til þeirrar verðbréfamiðstöðvar í því landi þar sem markaðurinn er. Markmið þeirra breytinga sem ég mæli hér fyrir að gerðar verði á 13. gr. laganna miðar þar af leiðandi að því að koma til móts við þarfir fjármálamarkaðarins að þessu leyti.

Herra forseti. Ég legg til að máli þessu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og hv. efh.- og viðskn.