Framhald umræðu um fjáraukalög 2001

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:31:09 (445)

2001-10-11 14:31:09# 127. lþ. 9.92 fundur 68#B framhald umræðu um fjáraukalög 2001# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:31]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að hér skuli vera önnur þingmál til umræðu en fjáraukalögin. Á fundi með þingflokksformönnum hafði verið um það rætt að það mál yrði eitt á dagskrá í dag. Þingfundi yrði hins vegar ekki haldið lengur áfram en til kl. 4 í síðasta lagi vegna þess að menn vildu verða við þeirri eðlilegu ósk frá Sjálfstfl. að ljúka þinghaldi snemma þar sem Sjálfstfl. er að hefja landsfund sinn. Það kom mér mjög á óvart, vægast sagt, að skyndilega væri fjáraukalagaumræðunni skotið á frest. Þar voru tveir á mælendaskrá, þar á meðal ég. Ég verð hins vegar ekki í þinginu komandi mánudag þegar málið verður væntanlega tekið upp aftur. Ég hefði gjarnan viljað eiga orðastað við talsmenn Sjálfstfl. sem hér hafa tjáð sig, m.a. hv. þm. Pétur H. Blöndal. Mér hefði fundist eðlilegt að hv. þm. yrði sýnd sú lágmarkskurteisi að ræða þetta breytta fyrirkomulag við þá áður en þessi ákvörðun var tekin.

Ég vildi að þetta kæmi fram.