Samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar

Fimmtudaginn 11. október 2001, kl. 14:48:30 (456)

2001-10-11 14:48:30# 127. lþ. 9.4 fundur 136. mál: #A samningsgerð, umboð og ógildir löggerningar# (reglugerð) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ágætt að fá það fram í ræðustól þingsins að hæstv. viðskrh. ætli að hafa samráð við Neytendasamtökin um setningu reglugerðar eins og heimilt verður ef þetta frv. verður að lögum.

Hitt er annað mál að það er tvennt ólíkt þ.e. yfirlýsing frá hæstv. ráðherra um að hún ætli að beita sér fyrir því og hitt að slíkt samráð verði lögbundið. Ég treysti þessari ríkisstjórn ekki eða einstökum ráðherrum, miðað við fyrri reynslu, til að hafa uppi eðlilegt samráð eða samskipti við hagsmunasamtök um hina ýmsu málaflokka. Við höfum brennt okkur illa á því í mörgum málum, m.a. þeim sem heyra undir hæstv. viðskrh. Ég get nefnt bankalögin þar sem verið var að breyta bönkunum í hlutafélög. Þá var margkallað eftir því að haft yrði eðlilegt samráð við samtök bankamanna. Þetta er dæmi sem kemur upp í hugann. Fleira mætti auðvitað nefna, t.d. samráð við aldraða eða öryrkja á vettvangi heilbrigðismála og félagsmála.

Það hefur einmitt oft verið farið út í það, svo ég nefni t.d. heilbrigðismál og lífeyrisþega, að lögbinda að samráð sé haft við hagsmunaaðila þegar lögum sem þá snerta er breytt. Þess vegna er allt annað, herra forseti, að þurfa að treysta yfirlýsingu frá ráðherra um samráð við Neytendasamtökin heldur en að slíkt samráð sé haft við þau samkvæmt lögum.

Ég mun, herra forseti, beita mér fyrir því í nefndinni að samstaða náist um að það verði sett í lög og áskilið að samráð sé haft við samtök neytenda um setningu þeirrar reglugerðar sem þetta frv. lýtur að.