Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:45:11 (471)

2001-10-15 15:45:11# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er nokkuð athyglisvert að umræðan hefur upp á síðkastið aðallega snúist um fjárhagsleg málefni Alþingis, sem er hins vegar einn örfárra aðila sem alls ekki eru í þessu frv. Ef maður flettir upp á fremstu síðunum og skoðar fjárveitingar til þess sem kallað er æðsta stjórn ríkisins þá eru þar bæði embætti forseta Íslands og ríkisstjórnin sjálf sem þurfa viðbótarfjárveitingar en ekki Alþingi. Samt er það aðalumfjöllunarefnið hér, m.a. hvernig það hafi gerst að auknar fjárheimildir til Alþingis hafi ekki ratað inn í frv. Það er nauðsynlegt og þarft að fá það upplýst en skiptir kannski ekki öllu máli, einfaldlega vegna þess að við erum að ræða um fjáraukalagafrv. við 1. umr. og Alþingi ákveður auðvitað sjálft það sem því sýnist og þarf í sjálfu sér ekkert á fjmrn. sem millilið að halda til að koma inn í endanlega gerð frv. áður en það verður afgreitt með þeim fjárveitingum sem það telur sig þurfa á að halda til rekstrar síns. Eru menn nokkuð að gleyma því að því ræður Alþingi sjálft og gengur frá þessu frv. eins og það vill hafa það í lokin? Ekki síst á það við þegar um þess eigin fjárveitingu eða rekstrarfé er að ræða.

Auðvitað er eðlilegt ef því verður við komið að Alþingi upplýsi fjmrn. um hvað það telur sig þurfa í þessum efnum og að það sé sett inn í frv. við 1. umr. Það er betri svipur á því, rétt eins og er gert með fjárlagafrv. Að sjálfsögðu er áætlað fyrir fjárveitingum til Alþingis en síðan verður endanlega farið yfir það og það ákveðið eða því breytt, ef svo ber undir, með brtt. fyrir 3. umr.

Varðandi húsnæðismál Alþingis að öðru leyti verð ég að segja að það sem ég varð mest undrandi á í því máli var kannski ekki að, eins og allt of oft gerist hjá opinberum aðilum, framkvæmdir færu fram úr áætlun, því miður. Ég varð hins vegar mjög undrandi á þeirri kúvendingu í stefnu um húsnæðismál Alþingis sem manni var allt í einu skýrt frá að búið væri að ákveða, að hætta við nýbyggingar á vegum Alþingis sjálfs hér á reitnum þar sem byggt yrði, í framhaldi af núverandi byggingu sem er að rísa, viðbótarhúsnæði sem hannað yrði sérstaklega eftir þörfum Alþingis og bættist við á reitnum á komandi árum. Ég hafði vonað að loksins kæmist áætlun um slíka uppbyggingu í gagnið og ég er þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að eiga sitt húsnæði sjálft, ráða því og reka það. Ég varð því ósköp lítið hrifinn þegar ég frétti af þessum leigusamningi.

Enn þá undarlegra eða óskiljanlegra er að svo óhönduglega skyldi takast til, úr því að Alþingi ákvað að vera enn um sinn stórtækur leigjandi á húsnæði í Kvosinni, að það þyrfti að sitja eftir sem áður uppi með umframkostnað. Auðvitað hefði Alþingi ekki átt að koma nálægt þessu máli fyrr en allt væri klappað og klárt og það gat flutt inn í húsnæðið fullfrágengið og borgað viðeigandi leigu. Ég verð að játa að ég skil ekki hvernig þetta gat gerst en ætla ekki að ergja mig á að fara meira yfir það.

Það alvarlega er að þetta virðist miklu nær því að vera regla en undantekning eins og þetta hefur gengið sl. missiri, að framkvæmdir á vegum hins opinbera og sérstaklega á vegum æðstu stofnana ríkisins lendi langt fram úr áætlun. Þetta er þeim mun bagalegra sem það liggur í hlutarins eðli hversu vont fordæmi það er, þ.e. hvernig Alþingi og ráðuneytum gengur að halda öðrum aðilum við efnið í hinu opinbera kerfi þegar menn sýna jafnslæmt fordæmi og raun ber vitni.

Hvernig er það t.d. fyrir forsrn. að sitja uppi með það að framúrkeyrslan á framkvæmdum í því ráðuneyti er einhver sú hroðalegasta sem sést hefur lengi í framkvæmdum á vegum ráðuneytisins sjálfs? Það kostaði ókjör að gera upp stjórnarráðshúsið og ekki tók betra við þegar Þjóðmenningarhúsið var tekið í notkun eins og allir muna. Þetta, herra forseti, er auðvitað mjög slæmt.

Að lokum vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það gangi ekki ef menn ætla að hætta að líta á framkvæmdir á vegum Alþingis sem opinberar framkvæmdir og láta einhver sérlög gilda um þær. Auðvitað eru þetta opinberar framkvæmdir og lög og reglur um opinberar framkvæmdir eiga að taka yfir þetta. Hins vegar er það ágætt ef Alþingi ákveður að hafa þar til viðbótar sérstakt eftirlit á sínum vegum til að geirnegla þetta enn betur en endranær. Það kann að vera hið besta mál ef menn hafa fundið í það góðan eftirlitsaðila. En ég tel ekki að það eigi að gilda margs konar lög eða margs konar verklagsreglur hér um opinberar framkvæmdir eftir því hvort þær eru á vegum Alþingis, forsrn., Hæstaréttar, biskupsins eða hvar það nú er. Ef þetta eru opinberar framkvæmdir í venjulegum skilningi þess orðs þá eiga þær auðvitað að falla undir sömu reglur.

Það eru tvö eða þrjú efnisatriði, herra forseti, sem ég ætla að nefna örlítið úr því að ég er farinn að tjá mig um þetta fjáraukalagafrv., sem ég hafði þó ekkert sérstaklega hugsað mér. Það eru útgjöld á tveimur sviðum sem ég verð að segja að vekja mér undrun. Í öðru tilvikinu er um að ræða 300 millj., í hinu tilviku 30 millj. Það þarf að bæta 300 millj. við framlög til forsrn. út af einkavæðingarbrölti, 300 millj. Hvernig getur þetta gerst? Hvað er hér á ferðinni? Hvers konar áætlun var lögð til grundvallar þessum verkefnum af hálfu forsrn.? Þó að það eigi að selja eitthvað örlítið meira eða reyna að selja, það gengur ekki út, eitthvað örlítið meira af opinberum eignum á þessu ári, er það frambærilegt að forsrn. þurfi að koma og biðja um 300 millj. í viðbót? Eru menn ekki ansi lausir á aurunum þegar kemur að gæluverkefnunum? Þá virðist ekkert vandamál að kippa inn 300 millj. kr. aukafjárveitingu, af því að það er í gæluverkefni, að koma út sameiginlegum eigum þjóðarinnar. Ég fæ ekki betur séð en það sé það sem þarna er á ferðinni undir liðnum forsætisráðuneyti.

Hitt eru svo 30 millj. í utanrrn. til að undirbúa fund. Ekki til að halda NATO-fundinn á næsta ári heldur til að undirbúa hann. Þurfa þeir 30 millj. til að undirbúa þetta sem á að gerast um mitt næsta ár? Hvað á það að kosta þá? Eru það ekki 180 millj. eða eitthvað svoleiðis? Þarna virðast til nógir peningar og hleypur á hundruðum milljóna þegar gæluverkefni af þessu tagi eru á ferðinni. Hvenær var það borið undir Alþingi að Ísland byðist til að taka að sér þennan fund? Hefur utanrrh. leyfi til að samþykkja að við bjóðumst til að halda hérna fundi sem kosta hundruð millj. án þess að það sé svo mikið sem rætt á Alþingi Íslendinga sem fer með fjárveitingavaldið? Var þetta kannski borið upp í þingflokkum stjórnarflokkanna? Samþykktu þeir fyrir fram að styðja síðan tillögur um fjáraukalög og fjárveitingar í fjárlögum næsta árs?

Mér finnst þetta, herra forseti, ansi vel í lagt. Ég varð að segja alveg eins og er. Ríkisstjórnin ákveður innan fjárlagaársins að sulla út í einkavæðingargæluverkefnin sín, 300 millj. í viðbót og einhvers staðar á góðra vina fund hefur utanrrh. farið og boðist til að halda NATO-fund. Það eru 30 millj. í aukafjárveitingu á þessu ári og sjálfsagt hátt í 200 millj. á næsta ári og óvíst að það dugi. Þetta er allt saman ákveðið einhvers staðar úti í bæ og eftir á koma þeir til Alþingis og biðja um peninga eins og ekkert sé. Þetta ráðslag þykir mönnum til fyrirmyndar, eða hvað? Það er allt fullkomið sem þessi ríkisstjórn gerir eins og kunnugt er og ef eitthvað fer úrskeiðis þá er það ævinlega öðrum að kenna. Það hefur ekki heyrst af einu einasta tilviki í sögu þessarar ríkisstjórnar þar sem hún hefur að eigin áliti gert nokkuð rangt.

Sökudólgarnir eru hins vegar orðnir margir. Þess vegna datt mér í hug hvort menn gætu ekki kennt bara Búnaðarbankanum um framúrkeyrslu Alþingis --- ég leyfði mér að kalla það fram í áðan. Það má kalla það hótfyndni en það er ekki vitlausara en margt annað sem mönnum hefur dottið í hug þegar þeir þurfa að finna sér einhvers staðar sökudólg. Auðvitað hafa svo eftirlitsaðilarnir og Framkvæmdasýslan fengið að finna til tevatnsins.

Að lokum, herra forseti, saknaði ég þess að sjá hér lið í þessu fjáraukalagafrv. Ég var að vona að ég sæi hér annaðhvort undir forsrn., mögulega utanrrn. eða menntmrn., beiðni um aukafjárveitingu til að kaupa skipið Íslending og koma því hingað heim. Ég verð að segja alveg eins og er að mér svíður sá aumingjadómur að láta það mál vera afvelta mánuðum saman í þeirri stöðu sem, að ég best veit, það er enn þá. Þar er einstaklingur með þar á herðunum skuldbindingar sem nema væntanlega einhverjum tugum milljóna króna, maður sem hefur unnið mikið afrek við að byggja þetta skip og safna liði til að sigla því vestur um haf í fræga ferð sem þótti heppnast einstaklega vel og var mikil og góð landkynning. Nú liggur skipið eftir því sem ég best veit í reiðileysi vestan hafs. Menn hafa ekkert komist áleiðis í því að leysa það mál. Ég gerði mér vonir um að e.t.v. hefðu menn ákveðið að reyna að koma því fyrir í fjáraukalagafrv. og biðja um fjárveitingu til að kaupa skipið eða reyna að ná samningum við eigandann, þó ekki væri nema taka inn heimildargrein í frv. til að ganga til samninga við hann þó upphæðir væru ekki endanlega niðurnegldar.

Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi eitthvað af þessu máli frétt og hver sé hugur hæstv. fjmrh. í þessum efnum. Væri hæstv. fjmrh. ekki tilbúinn að styðja það að fjárln. Alþingis fari ofan í saumana á þessu máli og kanni hvað þarf til að fá farsæla niðurstöðu í þetta mál og við setjum okkur það að loka ekki þessu fjáraukalagafrv., eða a.m.k. ekki fjárlögum næsta árs, nema til staðar séu fullnægjandi lagaheimildir til þess að leysa málið. Ég skora á menn að gera það. Annars virðist sú hætta blasa við að þetta mál falli í gleymsku með einhverjum hætti eða verði afvelta áfram. Ég held að það sé engum til sóma að skilja þannig við það.