Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 15:59:23 (473)

2001-10-15 15:59:23# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég tel okkur það ákaflega vel sæmandi að halda ekki NATO-þing og það eru ekki feit rök í mínum huga að 14 ár séu síðan það var síðast gert. Það eru margar þjóðir í heiminum sem telja sig fullsæmdar af því að halda ekki NATO-þing. Ég hef t.d. aldrei heyrt að það hafi valdið þeim hugarangri í Svíþjóð að vera ekki aðilar að NATO og halda ekki NATO-fundi á svona 14 ára fresti. Ég held að hv. þm. ætti að hafa það í huga að hér er ekki um venjuleg fyrirbæri að ræða, eins og sést á þeim óheyrilegu kostnaðartölum sem þarna eru á ferðinni.

Við höldum hér oft fjölmenn þing og ráðstefnur í ýmiss konar samstarfi sem við erum aðilar að, hvort sem það er nú umdeilt eða óumdeilt. Við getum þar tekið Norðurlandaráðsþing á fimm ára fresti og ýmsar slíkar stórar ráðstefnur. Ég hef aldrei séð kostnaðartölur í líkingu við þetta, ekki neitt af þessari stærðargráðu. Það þarf kannski nokkurra millj. kr. viðbótarfjárveitingar hjá einhverjum aðilum sem hafa slíkt með höndum. En tölur af þessu tagi sjáum við varla, enda er hér um ræða fyrirbæri sem kostar óheyrilega öryggisgæslu sem fylgir þvílíkur kostnaður að engu tali tekur.

Mér er ekki kunnugt um að Íslendingar hafi verið skyldugir til þess á nokkurn hátt að bjóðast til að halda þetta þing. Mig grunar þvert á móti að það hefði verið öðrum NATO-þjóðum að meinalausu þó þingið hefði ekki verið haldið hér. Mig grunar að þetta hafi verið að frumkvæði okkar sjálfra, af einhverjum metnaðarástæðum, misskildum að mínu mati, að boð var lagt inn um að við skyldum taka þetta að okkur. Svo kemur reikningurinn hingað.

Ég var ekki bara að gagnrýna það að þetta skyldi gert heldur líka hvernig það ber að, að Alþingi stendur frammi fyrir beiðnum um aukafjárveitingar eftir að ráðamenn okkar hafa skuldbundið okkur með tilboði um að halda þingið, án þess að það væri rætt hér fyrst og ákveðið, með svipuðum hætti og við vitum öll t.d. að Ísland mun sækja eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna seint á þessum áratug. Við vitum að það mun kosta peningana. Það er fínt og þá ber það líka að með réttum hætti. Við stöndum öll saman um að sjá fyrir þeim útgjöldum sem af því leiðir.