Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:18:17 (477)

2001-10-15 16:18:17# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það ljóst að utanrrh. getur boðist til þess fyrir okkar hönd að halda fundi. Við ætlum ekki að fara að takmarka eða skilyrða það vald í sjálfu sér. En það liggur jafnframt í hlutarins eðli að Alþingi gerir það náttúrlega ekki að gamni sínu að gera ráðherra lýðveldisins afturreka með boð af því tagi sem menn hafa lagt fram í alvöru á alþjóðavettvangi í alþjóðasamstarfi. Það hlýtur líka að skipta einhverju máli hvort menn eru að tala hér um venjulegar ráðstefnur eða fundi þar sem þátttakendur borga fyrir sig sjálfir og kostnaður gistilandsins er óverulegur, mælist kannski í svolitlum umsjónarkostnaði og utanumhaldi, eða þessi ósköp sem þarna eru á ferðinni í þessu NATO-tilviki, þar sem kostnaðurinn kemur til með að hlaupa á hundruðum milljóna.

Ég gagnrýni að þegar um slíka hluti er að ræða þá sé það ekki rætt fyrir fram og það síðan a.m.k. kynnt Alþingi að til standi að bjóðast til að taka slíkt að sér. Mig rekur t.d. ekki minni til þess, sem nefndarmanni í utanrmn., að þetta mál hafi borið þar upp áður en tilboðið var lagt fram fyrir Íslands hönd. Mér finnst að það hljóti að þurfa að skoða þessi mál eftir því hvað í hlut á og hversu háa fjármuni menn eru að tala um. Það getur ekki verið að ég hafi heyrt það rétt, að hæstv. fjmrh. mæla almennt með því verklagi að fyrst bjóðist menn til að gera þetta eða hitt, taka að sér hluti sem kosta ómælda fjármuni úr ríkissjóði, og komi svo eftir á og biðji um peningana. Þetta er þá fyrsti fjármálaráðherrann í sögu lýðveldisins sem er almennt hrifinn af slíku verklagi. Ég hélt að menn vildu yfirleitt hafa röðina hinsegin.

Varðandi Íslending þá tek ég það gilt sem hæstv. ráðherra segir hér, að það hafi því miður ekki legið fyrir nein tillaga frá þeim ráðuneytum sem eðlilegast væri að færi með þetta mál, forsrn. sem hafði yfirumsjón með landafundahátíðahöldunum og afmælishaldinu öllu, samgrn. sem ráðuneyti ferðamála eða menntmrn. eða hvers sem það nú væri. Ég vona samt sem áður að þetta mál verði skoðað áður en umfjöllun um þetta frv. hér lýkur.