Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:23:18 (480)

2001-10-15 16:23:18# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýringarnar og svörin varðandi Auðunarstofu. Ég held að hæstv. ráðherra hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann orðaði það svo að Norðmenn hefðu gefið okkur þennan efnivið. Það er afar sérkennilegt að gjöfin er tré úti í skógi. Það er auðvitað skýringin á því að bæði gengisbreytingar og vaxtakostnaður hafa komið þarna við sögu, að menn hafa þurft, miðað við þetta, að fella trén og höggva þau til og gera ýmislegt til þess að koma þeim til þess staðar þar sem þau eiga að nýtast til þessarar byggingar. Þetta er auðvitað afar sérkennileg gjöf en ég vona að þetta verði hin besta stofa þegar upp verður staðið. Við vonum að ekki þurfi að koma til fleiri beiðna á fjáraukalögum vegna verkefnisins heldur náist að ljúka því.

Hins vegar hjó ég eftir öðru atriði og langar til að spyrja hæstv. ráðherra örlítið nánar út í það, þ.e. varðandi einkavæðingarkostnaðinn. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að það er lykilatriði að þegar að slíku verki er staðið þá sé vandað til allra verka. Þar af leiðandi þarf auðvitað líka að vanda til áætlunargerðarinnar. Það er auðvitað athyglisvert að áætlað var í þetta, fyrir þetta ár, 15 millj. kr. en nú er komið með beiðni upp á 300 millj. til viðbótar og það eru væntanlega fullkomnar skýringar á því. Hins vegar vekur athygli að í fjárlögum fyrir næsta ár er eingöngu áætlað að þetta séu 16,4 millj. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvort ekki séu þá á dagskrá ansi mikil einkavæðing á næsta ári eins og okkur hefur heyrst að standi til. Eða er ætlunin að þessar 300 millj. nýtist líka til þeirrar einkavæðingar sem fyrirhuguð er á næsta ári?