Fjáraukalög 2001

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:31:06 (485)

2001-10-15 16:31:06# 127. lþ. 10.5 fundur 128. mál: #A fjáraukalög 2001# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:31]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er hefðbundið í umræðum um fjáraukalögin að deilt sé um hvort liðir séu ófyrirséðir eða ekki. Við höfum haft þá stefnu að reyna að takmarka eins og nokkur kostur er þær óskir sem koma um aukafjárveitingar einmitt á þeim grundvelli.

Hins vegar er það svo eins og t.d. með þann lið sem þingmaðurinn nefndi að safnast hefur upp óuppgert mál yfir nokkurra ára tímabil sem þarf að ljúka. Og þá er eðlilegast að mínum dómi að gera það á þennan hátt. Hinn kosturinn væri sá að taka þetta inn í fjárlagafrv. næsta árs. Það má svo sem segja að það breyti ekki öllu, en ég tel að í þessu tilfelli hafi þetta verið eðlilegast.

Að því er varðar það sjónarmið sem fram kom hjá þingmanninum í upphafi, þá er það alveg rétt að ríkisstjórnin hefur 200 millj. kr. lið til að ráðstafa í ófyrirséða hluti. Það er að sjálfsögðu gert þegar upp koma tilvik þar sem þarf að veita fé skyndilega, t.d. vegna náttúruhörmunga erlendis eða annarra slíkra atburða, þá er gripið til þess liðar. Ráðuneytin hafa síðan sína safnliði til að ráðstafa í ófyrirséða hluti og eitt og annað eins og alkunna er. En það sem hér er er hins vegar talið falla utan við þá liði og er þess vegna ástæða til að veita í sérstakar fjárveitingar á grundvelli fjáraukalaga.