Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:52:52 (489)

2001-10-15 16:52:52# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. hefur fellt dóm sinn um þessa tillögu og talar um viðleitni eða sýndarmennsku. Við erum auðvitað, Vinstri hreyfingin -- grænt framboð, að sýna viðleitni. Herra forseti, ég tel að sú viðleitni sem við sýnum á þessu sviði sé öllu meiri en viðleitni hæstv. ríkisstjórnar sem býður ekkert nema Noral-verkefnið sem stærsta byggðaverkefni sögunnar.

Við höfum ekki trú á því, herra forseti, að álver í Reyðarfirði muni treysta byggð, hvorki á öllu Austurlandi, frá Bakkafirði niður að Höfn, né á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu. Það er enginn vafi á því að Noral-verkefnið, álverið í Reyðarfirði, mun auðvitað hafa umtalsverð áhrif í byggðum næst álverinu. Á því leikur enginn vafi. En við skulum þá, herra forseti, líka ræða um hvort það séu jákvæð byggðaáhrif, að reisa svo risastóra álverksmiðju í svo fámennu byggðalagi sem Fjarðabyggð er. Við skulum þá líka tala um jákvæða byggðaþróun.

Það má setja það þannig upp að við séum á móti öllu. Við erum á móti því að illa sé farið með náttúruna, að það sé farið óvarlega í fiskeldi í sjó með því að rækta lax sem ekki er af íslenskum uppruna. Við viljum að farið verði varlega í sakirnar. Við höfum aldrei sagt að við séum á móti fiskeldi en við viljum fara að með gát til þess að spilla ekki öðrum atvinnuvegum og framtíð íslenska laxins.