Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:56:14 (491)

2001-10-15 16:56:14# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:56]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Við erum nú ekki búin að byggja þetta álver enn þá. Við erum ekki búin að reisa þessa risavirkjun, því að álverið stendur ekki eitt og sér. Það þarf að hafa alla myndina í huga, þ.e. Noral-verkefnið eins og það leggur sig. Við erum ekki búin að byggja þetta og höfum ekki séð hvort þetta skilar einhverjum arði í þjóðarbúið. Það getur allt eins farið svo að við sitjum uppi með kostnað af verkefninu þegar til lengri tíma er litið.

Óskilgreind verkefni, segir hæstv. ráðherra. Við erum ekki að tala hér um sokkaverksmiðjur eða ákveðnar verksmiðjur, eitt stykki af einhverju. Við erum hér að tala um að á mörgum sviðum þarf fjármagn og stuðning við þau fyrirtæki sem fyrir eru í Austurlandi. Það þarf stuðning við allar þær hugmyndir og áhuga manna á að koma á nýjum fyrirtækjum. Við ætlum ekkert að leggja upp fyrir Austfirðinga hvaða fyrirtæki það ættu að vera. Það á að vera að frumkvæði þeirra sjálfra. Ég kalla það ekki óskilgreind verkefni. Ég kalla það verkefni sem spretta úr heimabyggð.