Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 16:59:51 (493)

2001-10-15 16:59:51# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Um þessar mundir er unnið að gríðarlega stóru verkefni, þ.e. að undirbúa virkjun og stóriðju á Reyðarfirði. Það er verið að undirbúa verkefni sem allir Austfirðingar hafa beðið um og biðja um, sagði hv. þm.

[17:00]

Þetta er ekki rétt, herra forseti. Þetta er eina byggðaverkefnið sem ríkisstjórnin reiðir fram. Og það er þess vegna sem íbúar Austurlands þiggja þetta frekar en ekki neitt. Ekki er boðið upp á neitt annað, herra forseti. Þetta er byggastefna hæstv. ríkisstjórnar.

Hvað viljum við gera?

Ég skal nefna eitt verkefni, bara eitt verkefni. Það er markaðssetning á Austurlandi tengd fluginu. Verið er að undirbúa að koma á beinu flugi til Evrópu næsta sumar og að taka á móti nýrri ferju eftir tvö ár. Hvaða fjármagn þurfum við til að markaðssetja Austurland og til að taka á móti ferðamönnum frá Evrópu að ári liðnu, að tveimur árum liðnum? Þetta er eitt af mörgum fjárfrekum verkefnum sem hæstv. ríkisstjórn hefur engan áhuga á að sinna heldur beinir hún öllum sínum áhuga að stærsta byggðaverkefni sögunnar.