Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:01:20 (494)

2001-10-15 17:01:20# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:01]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að ekki vilji allir Austfirðingar þau verkefni sem ríkisstjórnin er að berjast fyrir. Það má hugsanlega finna nokkra sem ekki vilja stóriðju á Austurland, en þeir eru örugglega ekki margir, ég fullyrði það. Og ég vil minna hv. þm. á að það var Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. alþm., og mikill baráttumaður hér, sem hóf umræðuna um stóriðju á Austurlandi. (Gripið fram í: Tuttugu prósent vilja hana ekki.) Hann hóf þá umræðu og hann er einn af hugmyndasmiðum vinstri grænna um ýmis önnur mál nú til dags.

Að segja að einhverjir Austfirðingar vilji þetta ekki, það er eflaust hárrétt. En ég fullyrði að langstærstur hluti Austfirðinga bíður eftir því að þetta verkefni verði að veruleika.