Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:05:41 (497)

2001-10-15 17:05:41# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun óska eftir því að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason lesi tillöguna og reyni að skilja hana. Ég er ekki að ætlast til og get ekki ætlast til þess að hann sé sammála henni því hann er haldinn álþráhyggju eins og svo margir aðrir.

En við erum að tala um að koma á sérstöku átaki í byggðamálum. Hann viðurkenndi það sjálfur áðan að vandamál væru á fleiri stöðum en á Austurlandi. Það eru nefnilega vandamál úti um land. Fólksflutningur er af landsbyggðinni hingað á höfuðborgarsvæðið. Það eru ekki allir sem hafa sérstakan áhuga á því að flytjast búferlum. En af ýmsum ástæðum neyðist fólk til að flytja vegna þess að það býr ekki við sömu kosti og kjör og við gerum hér á höfuðborgarsvæðinu.

Við viljum að byrjað verði á Austurlandi, en síðan verði farið í samsvarandi átak á öðrum svæðum sem eru jafnilla stödd. Það þarf að meta árangur þess verkefnis að þremur árum liðnum og þegar niðurstöður liggja fyrir og búið verður að meta þetta, þá verði farið í önnur verkefni.

Þetta er að mörgu leyti það sérstakt verkefni að við teljum ekki rétt að dreifa því út í öll kjördæmin strax, heldur byrja á einum stað, meta það, sjá hvernig þetta gefst, hvernig uppskeran verður. Það er mjög mikilvægt í þessu sambandi að verkefnið standi a.m.k. í sex ár, þannig að þau verkefni sem hleypt yrði af stað fái almennilegt brautargengi.