Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:18:35 (501)

2001-10-15 17:18:35# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:18]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason rakti ýmsar leiðir sem mætti fara til að treysta byggð. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þm. telji að þær lokanir á pósthúsunum hérna norður og austur um land sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir verði til að treysta byggð, bæta þjónustu og styrkja atvinnugreinarnar í byggðum landsins?

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, þegar fulltrúar Norðurhéraðs komu á fund til okkar í fjárln. og gerðu grein fyrir því að símasambandið væri með þeim hætti að útilokað væri að nota posa sem var þó á ýmsum sölustöðum, ferðaþjónustustöðum og víðar, vegna þess að símasambandið slitnaði alltaf. Þeir gerðu okkur líka grein fyrir því að símasambandið væri reyndar líka þannig í almenningssímum að ekki væri hægt að halda þar út símtöl vegna þess að sambandið væri svo lélegt og ekki væri hægt að halda uppi og ljúka samtölum. Ég hef ekki heyrt neinar sértækar tillögur til þess að grípa hér til, en þetta er mjög takmarkandi fyrir starfsemina, heldur eru menn uppteknir af því að selja Landssímann, selja það tæki sem hægt væri að beita til jöfnuðar fyrir þessi sveitarfélög. Þar hefur hugur hv. þm. Hjálmars Árnasonar heldur betur snúist en hann hafði sett það að markmiði að þessum jöfnuði í þjónustu yrði komið á áður en Landssíminn yrði seldur. Ég leyfi mér því, herra forseti, að benda hv. þm. á að það er talsvert bil milla orða, gjörða og ákvarðana hjá Framsfl. í byggðamálum varðandi það sem hann lýsti yfir fyrir ári síðan að hann ætlaði að beita sér fyrir.