Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:35:19 (507)

2001-10-15 17:35:19# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að tillagan sé alveg nægjanlega skýr til þess að varða þá leið sem við viljum fara í þessum efnum. Við viljum hefja þetta átaksverkefni á Austurlandi og fyrir því eru margvísleg rök. Þau koma fram í greinargerð með frv. Það er rétt að við leggjum til að þessum fjármunum verði varið í þessu skyni, 2,4 milljörðum á öllu áætlunartímabilinu á Austurlandi. En áður en það tímabil er hálfnað, þ.e. innan tveggja til þriggja ára og í ljósi reynslunnar af því hvernig verkefnið fer af stað á Austurlandi, verði borið niður annars staðar í landinu þar sem aðstæður eru sambærilegar.

Það þarf ekkert að fara í útúrsnúninga og spíssfyndugheit um það hvort menn eigi að fara rangsælis eða réttsælis, fari til suðurs áður en menn fara til norðurs. Langæskilegast væri að öll þau svæði landsins þar sem sambærilegar aðstæður eru, þ.e. þar sem menn búa við fólksfækkun og erfiðleika af því tagi --- það liggur nokkuð fyrir hvar ástandið er þar alvarlegast, þ.e. á norðausturhorni landsins, Vestfjörðum og um norðvestanvert landið, ef maður tekur þau svæði sem mest hafa verið að tapa fólki --- hvort sem menn færu í þetta eftir gömlu fjórðungunum sem að mestu leyti heyra sögunni til og eru í raun ekki til sem afmarkaðar einingar í stjórnsýslunni nema bara í sagnfræðilegu tilliti og meira að segja eru sýslurnar dottnar upp fyrir, eða á grundvelli nýju kjördæmanna, þ.e. þeirra svæða innan þeirra þar sem þörfin er mest, þá held ég að það mundi ekki vefjast neitt fyrir mönnum að skilgreina þau svæði á Íslandi sem eru í mestri þörf fyrir aðgerðir af þessu tagi. Það er alveg ljóst að um þetta er einmitt beðið af hálfu þeirra sem standa í vörninni fyrir byggðunum og eru að reyna að sinna atvinnuþróunarstarfi á þessum svæðum.

Ég hvet t.d. hv. þm., ef hann hefur ekki gert það nýlega, að fara til Vestfjarða, heimsækja Þróunarstofu Vestfjarða og ræða við það ágæta fólk sem þar starfar, hlusta á allar hugmyndirnar sem menn hafa þar fram að færa um möguleika Vestfjarða t.d. á sviði ferðaþjónustu og fjölmörgum fleiri sviðum og taka jafnframt eftir með hversu tómar hendurnar menn eru að reyna að sinna þessu starfi.