Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:52:50 (512)

2001-10-15 17:52:50# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það færi nú betur á því að hæstv. iðnrh., byggðamálaráðherrann, styddist við einhverja heildarmynd. Ég er ansi hræddur um að verk hennar sýni að sú heildarmynd er ekki til staðar. Það var það sem ég ræddi hvað mest um í ræðu minni. Enn og aftur leyfir hæstv. ráðherra sér að halda því fram að við séum óábyrg í fjármálum og vitum ekki hvaðan þessir peningar eigi að koma.

Var ekki verið að samþykkja 300 millj. kr. aukafjárveitingu út af einkavæðingardekrinu? Er ekki verið að nota hundruð milljóna til undirbúnings atvinnustarfsemi sem við viljum ekki sjá? Þetta er spurning um sýn okkar á tilveruna. Eðlilega mundum við, á grunni skoðana okkar, virðulegi forseti, veita þessum fjármunum, sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra nota í annað, í farveg sem við teljum til heilla til framtíðar er litið. Hvað halda menn að allt þetta brölt kosti, undirbúningurinn, þ.e. vinnan, með tilliti til fjármála og skipulags og síðan beinharðar framkvæmdir eins og orku- og iðjuvegir? Þetta er allt spurning um sýn manna og hvernig menn vilja þróa samfélagið. Það er eins og hæstv. ráðherra og hennar flokksmenn í Framsfl. haldi að ef ríkið komi ekki inn með beinar aðgerðir í uppbyggingu á stóriðju og virkjunum verði bara drómi yfir samfélaginu.

Hafa menn í Sjálfstfl. og Framsfl. virkilega enga trú á möguleikum almennings og félagasamtaka þeirra til að stunda hér atvinnuuppbyggingu? Þá er mér illa brugðið.