Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:57:08 (514)

2001-10-15 17:57:08# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:57]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi pólitíska sýn í bankakerfinu þá hélt ég að ég hefði skýrt hana ágætlega með því að taka sem dæmi Norræna fjárfestingarbankann. (Gripið fram í: Snýst þetta ekki um íslenska bankakerfið?) Þar er viss pólitísk sýn og það er ekkert að því að taka dæmi frá útlöndum þar sem vel hefur tekist til. Ég er bara að tala um það, virðulegi forseti, að nota peningana í annað. Ég hélt að það hefði verið mjög skýrt í máli mínu. Ég er bara að tala um að ef menn hafa ekki sömu stefnu í uppbyggingu atvinnumála og ríkisstjórnin þá gera þeir tillögur um annað. Hæstv. byggðamálaráðherra er náttúrlega fullkunnugt um að til undirbúnings þessum málum hafa verið veittar gríðarlegar fjárupphæðir á undanförnum árum. (Iðnrh.: Það kemur allt til baka.) Við vitum það öll. Fæst allt til baka, segir hæstv. byggðamálaráðherra en það er ekki í hendi enn þá. Það er búið að setja gríðarlega peninga í þetta.

Við höfum í okkar málflutningi talað fyrir annarri sýn varðandi uppbyggingu atvinnu í landinu. Menn þurfa ekki að halda, eins og ég sagði í ræðu minni, að hugmyndir manna um uppbyggingu komist ekki í framkvæmd þótt ekki sé unnið að því hörðum höndum, miðstýrt héðan frá Reykjavík, að byggja stóra verksmiðju þar sem í kringum þúsund manns geta unnið ef allt er til talið. Það er bara ekki þannig.

Eyjafjörður beið eftir álveri í 15--20 ár. Ég veit ekki til þess að menn hafi hætt að hugsa þar heila hugsun þótt sú verksmiðja hafi ekki komið. Ég veit ekki til annars en atvinnumálin hafi gengið bærilega þrátt fyrir það.