Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 17:59:21 (515)

2001-10-15 17:59:21# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Út af því sem hv. þm. sagði nú síðast vil ég minna á að samkvæmt hans eigin tillögum um sjávarútvegsmál er gert ráð fyrir að hlutur togara verði skertur um 20%, sem þýðir að skera eigi niður fimmta hvern togara í Eyjafirði. Kannski er kominn tími til að fara að hugsa að nýju um álver þar um slóðir ef fólkið á ekki að þurfa að hrökklast burtu.

Ég verð að biðja hv. 3. þm. Norðurl. e. afsökunar á því að ég hafði mislesið tölur eins og ég geri stundum. Ég áttaði mig ekki á að hugmyndin væri að veita 400 millj. á ári í 6 ár og það ætti að veita 1,2 milljörðum kr. til Austurlands áður en farið væri að huga að öðrum fjórðungum í þessum tillögum. Eins og þessi tillaga er sett fram liggur beinast við að skilja það á hinn veginn. Þetta kemur mér satt að segja nokkuð á óvart. Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

[18:00]

,,Árangur og framvinda verkefnisins verði metin áður en tímabilið er hálfnað og í ljósi þess verði öðrum landshlutabundnum átaksverkefnum hrundið af stað.``

Þetta skil ég svo að það eiga að bíða þess að tímabilið sé hálfnað áður en farið er í átaksverkefni í öðrum landsfjórðungum. Það þýðir þá á mæltu máli að það á að veita 1,2 milljörðum kr. til Austurlands samkvæmt þeirra hugmyndum áður en menn fara að gefa sig að öðrum fjórðungum. Það má auðvitað segja að þetta sé að beina sjónum sínum til Austurlands og er auðvitað ekkert nema gott um það að segja að hv. þingmenn vilja standa vel að þeim fjórðungi. Til þessa hefur ekki hallast á því að ýmsir aðrir þingmenn hafa mjög beint sjónum sínum að öðrum fjórðungum án þess að hugsa um landið í heild.

Ég vil vekja athygli á því sem hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Fjármagn það sem veitt er til átaksverkefnisins skal ekki nota til framkvæmda sem eru á föstum fjárlagaliðum ríkis og sveitarfélaga.``

Ég held að mjög nauðsynlegt sé að hafa þetta mjög skýrlega í huga þar sem við erum að tala um tæpa 10 milljarða kr. Við hugsum okkur að 2,4 milljarðar kr. fari í hvern fjórðung, sem ég veit ekki hvort er hugsun flutningsmanna. Þetta er að sjálfsögðu verulegt fé. Hér er verið að tala um þau hagnýtu verkefni sem bíða úrlausnar á Austurlandi, með leyfi forseta, og sagt að féð mætti nýta til þess:

,,Að koma á styrktarkerfi fyrir nýsköpunar- og þróunarverkefni sem tengt væri frumatvinnugreinunum, setja á stofn sérstök þróunarverkefni í sjávarútvegi og landbúnaði og sinna uppbyggingu rannsóknaumhverfis og kerfis er lyti ekki síst að hagnýtum rannsóknum.``

Auðvitað eru þetta áhugaverð verkefni og væri mjög gott ef flutningsmenn gætu skýrt nánar hvaða sérstök þróunarverkefni þeir hafa í huga í sjávarútvegi og landbúnaði fyrir austan. Þeir leggja höfuðáherslu á að byrja þar og nefna þetta fyrst, þ.e. frumatvinnugreinarnar. Því væri mjög gott og upplýsandi ef hægt væri að fá um það nokkru nánari upplýsingar. Um leið vek ég athygli á að á þessu svæði --- því að rætt er um ferðaþjónustu --- strandar mest á samgöngum. Það er t.d. bent á nauðsyn þess bæði fyrir Austurland og Norðausturland að vegur komi niður með Jökulsá á Fjöllum vegna þess að Dettifoss hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. En í þessari tillögu er sem sagt ekki gert ráð fyrir því að fara í annað kjördæmi og þaðan af síður gert ráð fyrir því að einni einustu krónu af þessum tæpu 10 milljörðum verði varið til þess að greiða fyrir samgöngum, flýta uppbyggingu vega eða með öðrum hætti greiða fyrir ferðaþjónustunni. Maður áttar sig því ekki alveg á því hvað þessir hv. þm. hafa í huga í sambandi við ferðaþjónustuna.

Herra forseti. Ég verð að segja að í fyrstu verkar þessi tillaga þannig á mig að hv. þm. séu að reyna að gera það sama og KR í gamla daga, að bjarga í horn í þeirri erfiðu stöðu sem þeir eru í nú varðandi Austfirðinga með því að leggjast af alefli gegn því að ráðist verði í Kárahnjúkavirkjun og leggjast af alefli gegn því að álver verði reist við Reyðarfjörð. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að það yrðu óréttlætanleg náttúruspjöll ef ráðist yrði í þá virkjun. Ég man satt að segja ekki eftir því að hann hafi notað önnur orð en náttúruspjöll um allar þær stórvirkjanir sem ráðist hefur verið í hér á landi. Ég hygg að hann hafi --- ég veit ekki hvort hann sagði mikið um Búrfellsvirkjun að vísu --- en ég hygg að hann hafi ævinlega síðan hann hóf afskipti af stjórnmálum verið andvígur álverum svo að þessi hans afstaða kemur ekki á óvart. Og eins og heyra mátti í ræðu hv. þm. þá taldi hann það eftir að hvert starf í álverinu væri, ég held að hann hafi notað orðalagið ,,óheyrilega dýrt``. Það var a.m.k. sú merking í hans orðum.

Nú er þetta gömul deila, alveg frá því að ráðist var í Búrfellsvirkjun, hvort rétt sé að kosta svo miklu til einstakra starfa eins og gert er í orkufrekum iðnaði, álveri og öðrum slíkum iðnaði. En það er auðvitað um leið spurningin um það hvort við viljum nýta auðlindir landsins og fallvötnin. Ef við viljum nýta fallvötnin til þess að framleiða orku í miklum mæli og hvort við viljum nota þá orku til þess að vinna ál, vetni eða hvað annað sem nefnt er, þá hlýtur ævinlega að vera mikil fjárfesting á bak við hvert starf í orkugeiranum eða iðnaðargeira sem styðst við orku, sem einu sinni var skilgreint stóriðja. Þess vegna lýtur þessi athugasemd hans líka þeim grundvallarágreiningi sem verið hefur milli okkar þar sem ég held því fram að við eigum að nýta fallvötnin til þess að létta okkur stöfin við að hafa það gott og sómasamlegt í landinu til þess að við getum borið okkur saman við önnur lönd. En það gerum við ekki nema nýta orkuna.

Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. að allur byggðavandi leysist ekki með einu álveri á einum stað á landinu. En mér sýnist að þessi tillaga eins og hún liggur fyrir sé þannig fram borin að allur byggðavandi eins og hann er séður af Vinstri grænum eigi að leysast með því að leggja 400 millj. til Austfjarða á ári næstu árin, svo ég átta mig ekki alveg á því hvort sýnin er þá að öllu misjöfn. En við verðum einhvers staðar að byrja og auðvitað vitum við báðir að álver við Reyðarfjörð mun bæta atvinnuástand þar, breikka atvinnugrundvöllinn og verða til þess að bæta almennt það vinnusiðferði og vinnumóral sem þar er.