Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:07:38 (516)

2001-10-15 18:07:38# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:07]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. e. hóf ræðu sína á því að segja að tillögur mínar væru til þess fallnar að minnka eða draga úr togaraútgerð í Eyjafirði og þá væri kannski þörf á álveri þar á svæðinu. Ég vil bara benda hv. þm. á að hann hefur ekki lesið tillögurnar mjög gaumgæfilega vegna þess að þar eru ítarlegar tillögur um byggðatengingu og leigu á aflahlutdeildum þannig að það er algerlega ástæðulaust að vera með framsetningu af þessu tagi þegar menn hafa ekkert kynnt sér hvernig tillögurnar eru upp byggðar og til hvers þær muni leiða. Hins vegar er augljóst að tillögurnar eru þess eðlis að þær geta leitt af sér breytt útgerðarmunstur að einhverju leyti. En ég frábið mér að menn tali svona.

Það er heldur ekki rétt að Vinstri grænir vilji ekki nýta fallvötnin eins og margoft hefur komið fram í málflutningi okkar í þinginu. Hvenær höfum við sagt það? Við höfum aldrei sagt það. Við höfum hins vegar skoðanir á því til hvers eigi að nota þá orku sem er virkjuð. Við höfum alla tíð sagt að við vildum ekki virkja fallvötnin eða gufuaflið til þess að knýja fram mengandi stóriðju. Það er ekkert samasemmerki á milli þess og að segja að við séum á móti því að virkja fallvötnin. Það er bara firra. Við viljum bara að gera það til annarra nota og við höfum margoft tekið það fram í málflutningi okkar í þinginu, mörgum sinnum. Þetta eru því útúrsnúningar.