Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:09:52 (518)

2001-10-15 18:09:52# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:09]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg furðulegt að upplifa það á hinu háa Alþingi hvað eftir annað að þeir sem kenna sig við frjálsræði og frjálshyggju krefja okkur ævinlega um rekstrarplön fyrir fyrirtæki á Íslandi. Ég vil bara minna hv. þm. á, úr því að við erum að tala um Eyjafjörð, að þar eru duglegir útgerðarmenn. Heldur hv. þm. að ég ætli að gefa þeim formúlu fyrir því hvernig þeir eigi að reka sín fyrirtæki? Þvílík fásinna, þvílík gamaldags framsetning. Er árið 1960? Það er bara ekki þannig.

Duglegir útgerðarmenn vinna eftir þeim lögum og reglum sem hið háa Alþingi setur og þeir finna hverju sinni þá leið sem þeim þykir henta sínu fyrirtæki, auðvitað. Okkar hlutverk er að búa til ramma og hafa sýn. Ég hélt að menn á hinu háa Alþingi vissu það. Við eigum ekki að hræra í grautarpottinum hjá hverjum og einum. Það er ekki okkar hlutverk. Ef hafragrauturinn hleypur í kekki hjá einhverjum úti í bæ þá er það hans vandamál vegna þess að hann hefur ekki hrært í pottinum.