Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:16:20 (522)

2001-10-15 18:16:20# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þróunin í þessari umræðu er auðvitað mjög merkileg sem er vegna þess hvernig stuðningsmenn þessara álversframkvæmda stilla hlutum upp, að ef þetta álver rísi ekki og þeir sem ekki gagnrýnislaust skrifa upp á það, þeir eigi þá að birta lista, upptalningar yfir önnur fyrirtæki. Og er þetta þá ekki gagnkvæmt? Vill þá ekki hv. þm. Halldór Blöndal og stuðningsmenn stjórnarliðsins birta okkur lista yfir verksmiðjur, skilgreindar eftir tegundum starfsemi sem þeir telja að eigi að reisa á öðrum stöðum á landinu?

Er þetta ekki gamli tíminn þegar menn tóku miðstýrðar ákvarðanir um að hér skyldi rísa niðursuðuverksmiðja, þarna skyldi prjóna sokka o.s.frv. Ég hélt að við værum að reyna að komast frá þeim tíma og markmiðið væri að skapa hagstæð skilyrði og leggja grunn og undirstöðu undir fjölbreytt og gróskumikið atvinnulíf. Þannig nálgast menn þetta orðið hjá öðrum þjóðum. Við sitjum hér föst með einhverja gamla arfleifð sem leiðir af þessari ofurtrú á stóru, miðstýrðu pakkalausnirnar, og gekk að hluta til aftur í niðurstöðu meiri hluta endurskoðunarnefndar sem ætlar að láta fjögur ráðuneyti í Reykjavík með eyrnamerktum peningum byggja upp atvinnulíf í staðinn fyrir sjávarútveginn sem menn viðurkenna að er að hrynja niður á grundvelli óbreyttrar stefnu.

Ég gæti reynt að telja upp, ef ég hefði meiri tíma, ýmis tækifæri tengd landbúnaði og sjávarútvegi. Menn hafa verið að reyna að koma upp kítínverksmiðjum til að framleiða verðmæti úr rækjuskel, kræklingaeldi, menn hafa af veikum mætti verið að reyna að prófa kúfiskveiðar á norðausturhorni landsins og ekki fengið merkilegan stuðning til þess, hafa mátt berjast um á hæl og hnakka til að fá eðlilega lánafyrirgreiðslu, t.d. í bönkum, til að byggja skip o.s.frv. til þeirra veiða.

Í landbúnaðinum hafa menn verið að reyna að þróa ýmsa möguleika tengda ferðaþjónustu og afþreyingu, lífræna ræktun, skógrækt, að komast í að upprunamerkja vöru þannig að hægt væri að bjóða upp á fjölbreyttara úrval upprunamerktrar vöru af ýmsum toga, hágæðavöru, o.s.frv. Ég get út af fyrir sig búið til lista fyrir hv. þm. ef það er það sem málið snýst um.