Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:18:37 (523)

2001-10-15 18:18:37# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:18]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Kítínverksmiðja hefur risið á Siglufirði. Ég er nú ekki sannfærður um að hægt sé að reisa slíka verksmiðju hringinn í kringum landið og búast við því að hver og ein þeirra fái nægilegt hráefni. Ekki þýðir nú að hugsa þannig. Ég held að menn verði að hafa eitthvað víðari sjóndeildarhring en það.

Herra forseti. Það sem liggur fyrir og býr á bak við þessa tillögu er að flutningsmenn hafa hafnað þeirri leið að nýta fallvötnin á Austurlandi til að byggja þar upp atvinnu. Þeir hafa hafnað þeirri leið að nota og nýta auðlindir Austurlands fyrir það fólk sem býr á Austurlandi. Það er það alvarlega í þessu máli. Auðvitað vitum við, eins og ég sagði áðan, gamlir þingmenn að norðan, að hv. þm. hefur verið á móti álveri við Eyjafjörð. Ég hafði satt að segja ekki búist við að hann yrði með jafnmiklum ákafa á móti álveri á Austurlandi.

Þegar við erum að ræða um að reisa háskóla, og hér stendur að ekki megi nota þessa fjármuni til framkvæmda sem eru á föstum fjárlögum ríkisins, skiptir miklu máli að margt fólk búi á Austurlandi, þar séu háskólamenntaðir menn og þannig umhverfi. Þar sé mikil verkkunnátta og verkþekking, og auðvitað mundi álver styrkja þá hugmynd en ekki draga úr henni. Þannig að fyrsta skrefið til að ná þeim markmiðum sem hv. þm. vilja ná með þessari þáltill., og þau markmið eru út af fyrir sig göfug, er auðvitað að byggja á þeim möguleikum sem við höfum, hvar sem þeir eru. Og þá er vænlegasti og besti möguleikinn álver við Reyðarfjörð. Það er alveg gefið mál að hver sá þingmaður sem leggst gegn þeirri framkvæmd missir mikið traust á Austurlandi.