Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:20:49 (524)

2001-10-15 18:20:49# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:20]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Sú umræða sem átt hefur sér á stað á hinu háa Alþingi um þá þáltill. sem hér liggur fyrir hefur um margt verið góð. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er sem landsbyggðarmaður mjög hlynntur svæðisbundinni byggðastefnu og hef reynt að tala fyrir henni og tel að við Íslendingar eigum að fara meira út í þá framkvæmd og tileinka okkur það sem gert hefur verið í nágrannalöndum okkar í fjöldamörg ár í byggðamálum og nálgast þetta á þann hátt.

Ég bíð mjög spenntur eftir nýjum tillögum um byggðaáætlun. Þegar ég segi svæðisbundin byggðastefna þá á ég auðvitað við það að ef menn komast að þeirri niðurstöðu að byggðastefna gagnvart Vestfjörðum sé best þannig að þar verði efld smábátaútgerð, þá er það hið besta mál. Og þá ætti auðvitað að stuðla að því og ef menn komast að þeirri niðurstöðu að smábátaútgerðin gangi vel í staðinn fyrir togaraflotann sem var í upphafi þess tímabils, þá er það hið besta mál.

Í rauninni má segja að menn hafi beitt svæðisbundinni byggðastefnu gagnvart Eyjafirði. Menn hafa gert Eyjafjörð að miðstöð menntunar á landsbyggðinni, byggt þar upp háskóla og annað, og er hið besta mál. Sama má segja um Miðausturland, ef menn komast að þeirri niðurstöðu að þar sé hægt að byggja álver vegna þess að skilyrði eru hagstæð í Reyðarfirði, þá er það hið besta mál. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef verið mjög skotinn í þeirri hugmynd og er hlynntur henni, þó að ég hafi ákveðna fyrirvara sem ég ætla að koma hér að á eftir.

Í byggðamálum þyrftum við Íslendingar, eins og ég sagði áðan, að notfæra okkur það sem gefist hefur vel annars staðar. Ég held að að það sé úrelt dæmi í sambandi við styrki að gera það á þann hátt sem lagt er til í þáltill. þar sem gerð er tillaga um að 400 millj. kr. verði veittar til Austurlands, og vil leyfa mér að spyrja hv. flutningsmenn tillögunnar: Hvað með Vestfirði og hvað með Norðurland vestra? Ekki er nú byggðavandinn minni þar en á Austurlandi? Af hverju er það ekki tekið með í þessu dæmi?

Síðan langar mig að spyrja þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs: Hvers vegna er átakið nú allt í einu komið niður í 400 milljónir á ári? Vegna þess að í till. til þál. sem flutt var í upphafi þessa kjörtímabils, árið 1999, um sérstakar aðgerðir í byggðamálum sem þingflokkur Vinstri grænna lagði til, var það hvorki meira né minna en 5 milljarðar á ári. (SJS: Hvað var það?) 5 milljarðar. Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að tillaga eins og sú sem ég er hér að vitna í, ég held að hún skemmi fyrir byggðaumræðu í landinu og hafi gert það vegna þess að þegar menn eru að setja niður hina og þessa punkta um milljón þar og 500 milljónir hér o.s.frv., sé það ekki byggðamálaumræðunni til framdráttar.

Ég hefði, herra forseti, viljað sjá tillögur um það t.d. --- eins og ég ræddi um vegna tillögu um skattapakka ríkisstjórnarinnar um tryggingagjald --- að lagt væri á misjafnt tryggingagjald eftir landshlutum líkt og Norðmenn eru búnir að gera í mörg ár, og jafna þar með rekstrarskilyrði fyrirtækja milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Þess má geta að fyrirtækjarekstur á landsbyggðinni er töluvert erfiðari og skattatillögurnar núna eru eingöngu í þá veru að íþyngja fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni en ekki létta, vegna þess að mjög fá fyrirtæki fá skattalegan ávinning af lækkun tekjuskatts og eignarskatts.

Benda má á skattatillögu sem formaður Samfylkingarinnar hefur flutt um sprotafyrirtæki, þ.e. að leggja lægri skatta á fyrirtæki sem eru að hasla sér völl t.d. í þekkingariðnaði. Ég hef flutt þáltill. um þungaskattinn sem kemur ákaflega illa út fyrir atvinnurekstur á landsbyggðinni og frá 1998 eru til útreikningar um að þungaskattur hefur hækkað um allt að 40--45% frá 1998 þegar um lengstu vegalengd er að ræða eins og austur á land. Þungaskatturinn íþyngir fyrirtækjum mikið úti á landi og skekkir samkeppnisstöðu þeirra. Um þetta hef ég flutt þáltill. og sú tillaga verður flutt von bráðar með smáviðbót á þessu þingi.

Nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa einnig flutt tillögu um að athuga með svokallaða stofnstyrki sem er nokkuð sem tíðkast hefur í Evrópu og í Noregi í mörg ár. Norðmenn tóku þetta upp þegar þeir höfnuðu Evrópusambandsaðild. Þeir nota stofnstyrki og gera miklar arðsemiskröfur að vísu. Og ef fyrirtækjahugmynd og fyrirtækjastofnun fer í gegnum alla þá síu er hægt að veita stofnstyrki. Það væri virkilega þörf á að gera það.

Við höfum talað um flutning á fjarvinnslustarfsemi út á land. Ég vil aðeins benda á að fjarvinnsla hefur sennilega aðeins gengið á einum stað á landinu og það er á Siglufirði, hjá Sparisjóði Siglufjarðar sem er þar með mikla og öfluga starfsemi í samráði við Kaupþing í Reykjavík. Forstjóri Kaupþings og aðrir hafa lýst því að sú starfsemi sé mjög góð og af hinu góða. Það vantar að ríkið komi á eftir og flytji eitthvað af sínum störfum út á land. Og má minna á loforð hæstv. forsrh. og annarra um flutning Hagstofuverkefna til Ólafsfjarðar sem ekki urðu að veruleika. Um það höfum við fjallað, bæði þegar verið var að ræða um sölu á Landssímanum og annað, að hægt er að gera margt til að auðvelda fyrirtækjum á landsbyggðinni slíkan rekstur og styrkja hann en flutning þarf.

Ég spyr einnig, hvað með Byggðastofnun? Mér finnst Byggðastofnun ákaflega hölt og lömuð um þessar mundir og ég hef einhvern veginn á tilfinningunni að hún sé í miklu fjársvelti og eitthvað mikið sé að. Ef til vill er það bara ágreiningur innan ríkisstjórnarflokkanna sem gerir það að verkum að Byggðastofnun er að drabbast niður.

Herra forseti. Margt gott kemur fram í greinargerðinni og öðru sem tillögunni fylgir og hér er flutt. En mér finnst samt mjög skrýtið og endurtek því spurningu mína um það: Hvers vegna að veita eingöngu 400 millj. kr. til Austurlands í sex ár, hvers vegna ekki í önnur kjördæmi? Sannarlega er mikið vandamál á öðrum stöðum. Eða er það eins og mig grunar, að verið sé að veifa einhverjum rúsínum eða gulrótum í andlit Austfirðinga vegna þess hvernig Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur komið fram sem andstæðingar fyrir atvinnuuppbyggingu á Miðausturlandi, og þá á ég auðvitað við álver?

Ég vil rétt í lokin ítreka það og segi: Ég held að það sé kominn tími til hjá okkur að fara í svæðisbundnar byggðaaðgerðir, að búa til svæðisbundna byggðastefnu. Ekki er þar með sagt að byggðastefnu fyrir Vestfirði skuli endilega kópera fyrir Austurland eða öfugt. Það þarf að taka á þessu miðað við hvert svæði og til þess getum við notað svokallað byggðakort sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt.

Herra forseti. Rétt í lokin um atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Ég er hlynntur því að nota og nýta náttúruna og njóta náttúrunnar. Það liggur fyrir núna og um það hefur verið deilt hér hvort framkvæmdir eigi að fara í umhverfismat eða annað. Ég er hlynntur því að allar framkvæmdir fari í umhverfismat. Jákvæð niðurstaða hefur komið fyrir álver á Reyðarfirði. Jákvæð niðurstaða hefur komið fyrir höfn á Reyðarfirði, fyrir línulögnina og vegi að hluta. Kárahnjúkavirkjun er hins vegar í kæruferli og ekkert um það að segja, það er bara lögum samkvæmt. Ég bíð eftir þeirri niðurstöðu en ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, ég er og hef verið ákaflega skotinn í þeirri hugmynd að byggja álver á Reyðarfirði. Reyðarfjörður virðist falla vel til þess og það er hið besta mál, þó að ég hafi ákveðna fyrirvara og um það þarf ég ekki að ræða hér nú vegna þess að verkið er í umhverfismatsferlinu og ýmislegt sem þar kemur fram.

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að kröfur um ákveðna arðsemi eru náttúrlega algjört grundvallaratriði í því og ég segi einnig hér rétt í lokin að ég held og vona að þegar (Forseti hringir.) umhvrh. úrskurðar í sínu kæruferli þá geti jafnvel komið ýmislegt gott út úr því verkinu til framdráttar.