Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:31:27 (526)

2001-10-15 18:31:27# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaðist ekki til þess að svar frá hv. 1. flm. þessarar þáltill. kæmi hér í stuttu andsvari. Ég spyr mig hins vegar að því, og spurði þegar ég las þessar tillögur: Hvers vegna eingöngu Austurland? Ég held að það geti ekkert annað komið út úr því en að þar sé verið, eins og ég segi, að veifa smágulrótum fyrir framan Austfirðinga sem líta þannig á, og hafa reyndar séð það alla tíð, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð berjist gegn þeirri atvinnuuppbyggingu sem þar á að vera í formi stóriðju. Þess vegna get ég ekki lagt annan skilning í það að byrjað sé á Austurlandi vegna þess að, eins og ég sagði áðan, bæði á Norðurl. v. og ég tala ekki um á Vestfjörðum hefur byggðavandinn heldur betur verið og er jafnvel meiri en á Austurlandi og jafnvel öðrum svæðum staðbundnum innan kjördæma. Þess vegna skildi ég ekki hvers vegna ætti að taka Austurland eingöngu út úr og sér, og hef frekar styrkst í því.

Þetta á að meta eftir þrjú ár. Ég verð að segja alveg eins og er að ég held að t.d. Vestfirðir þoli ekki þriggja ára bið með sértækar aðgerðir í byggðamálum. Ég held að það sé ekki hægt að bíða svo lengi. Vandinn þar kallar á skjótar og fljótvirkar aðgerðir. Og ef við ætlum að taka á vanda Vestfirðinga eftir þrjú ár, drottinn minn dýri, hvað verður búið að gerast þá? Að maður tali ekki um nokkur svæði innan Norðurl. v. eða nokkur svæði innan allra annarra kjördæma þannig að ég endurtek það og segi: Ég fagna allri umræðu um byggðamál á hinu háa Alþingi en mér finnast sumar tillögurnar vera þannig að þær séu ekki byggðamálaumræðunni til framdráttar.

Ég lýsti því í ræðu minni áðan hvernig ég hefði viljað fara í gegnum þessi byggðamál með því að fara að hætti Norðmanna og annarra sem menn hafa verið að bera sig saman við og leita í smiðju þeirra og koma með þær aðgerðir sem þar eru. Þær hugnast mér betur en þessar.