Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:47:33 (537)

2001-10-15 18:47:33# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:47]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að fagna þeirri hugsun sem kemur fram í þessari þáltill., þ.e. að efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Hins vegar hlýt ég að spyrja hvaða verkefni er átt við. Að vísu eru talin upp í greinargerð með tillögunni ýmis verkefni. Eins og hv. 10. þm. Reykn., Hjálmar Árnason, benti á þá eru það verkefni sem þurfa töluverðan tíma. Ég held hins vegar að það séu allt saman þörf verkefni.

Þá hlýtur það einnig að vera spurning hvort flutningsmenn tillögunnar hafi hugsað um hvaða landshlutar fengju næst þessa 2,4 milljarða. Það hefur verið nokkur umræða um það en ekki alveg ljóst hvar yrði borið niður þar á eftir. Auðvitað brenna þessi mál mjög víða á fólki á landsbyggðinni. Ég þykist vita að fólk úr öðrum kjördæmum hlýtur að spyrja sig, þar sem erfitt ástand er: En hvers vegna ekki ég?

Þá má benda á, eins og margir hv. þm. hafa gert í þessum umræðum, að Byggðastofnum hefur ekki haft þá fjármuni sem æskilegt væri til að styrkja fyrirtæki á landsbyggðinni. Það er ekki, eins og skilja má af tillögunni, að Byggðastofnun komi aðeins að málum í eins konar slysavörn. Hún styður líka við frumkvæði og sá hlutur er frekar að eflast.

Þá hlýtur það að vera mikil spurning hvernig Austfirðingum hugnast þessar tillögur, þessar sérstöku aðferðir. E.t.v. hugnast þeim þær vel. Kannski þurfa þeir frekar stuðning við þau áform sem nú eru uppi um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í fjórðungnum. Ég segi fyrir mína parta að Austfirðingar allir, frændur mínir og vinir, hafa stuðning minn í þeim málum ef af verður. Ég tel það fagnaðarefni ef sýnt verður slíkt frumkvæði að byggja upp á landsbyggðinni alvörufyrirtæki.

Það er bara ein stóriðja starfandi núna á landsbyggðinni utan höfuðborgarsvæðisins. Það er lítil verksmiðja norður í Þingeyjarsýslu, Kísiliðjan við Mývatn. Hún hefur þurft að berjast fyrir lífi sínu. Það hafa ekki allir viljað una við þá starfsemi þó hún hafi verið þar í 30 ár. Menn hafa sett sig upp á móti henni án þess að benda á eitthvað annað.

Það er alltaf fagnaðarefni þegar byggt er upp á landsbyggðinni til þess að nýta þar gögn og gæði landsins. En auðvitað á að gera það vel. Ég tel styrkingu byggðar á Austurlandi brýnasta byggðamál þjóðarinnar í dag. Það mun styrkja Norðurland, það mun styrkja Suðurland. Austfirðir eru sá hlekkur í hringnum sem er hvað veikastur núna. Norðurland og Suðurland þurfa öflugt bakland á Austfjörðum og auðvitað á að efla þar allar samgöngur til Evrópu. Enginn landshluti liggur nær Evrópu en Austurland.

Ég vil sjá virka stefnu í að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, líka á Austfjörðum. Virkasta byggðastefna sem rekin hefur verið hér er sennilega sú að opinberum störfum á höfuðborgarsvæðinu hefur stöðugt fjölgað. Þó hið háa Alþingi hafi talað um það sérstaklega í byggðaáætlun að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni hefur niðurstaðan verið sú, þegar byggðaáætlanir hafa verið skoðaðar, að þeim störfum hefur fjölgað um 451 á höfuðborgarsvæðinu en fækkað um 31 á landsbyggðinni. Þá er ég að tala um þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun 1994--1997.

Flutningsmenn þáltill. tala um jafnar aðstæður, jöfnuð, jafnræði og aðgerðir til jöfnunar. Ég vil aðeins segja það um virkjunarmál að þar vil ég einnig sjá jafnræði. Ég vil sjá jafnræði í virkjana- og orkumálum í landinu. Það hefur öllum þótt það sjálfsagt að virkja á Þjórsársvæðinu og jafnvel Þingvallasvæðið til að efla atvinnu í höfuðborginni með orkufrekum iðnaði á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst að við verðum að láta landsbyggðina njóta þess sama, sama velvilja og þess fólks sem þar býr.

Herra forseti. Margt athyglisvert kemur fram í grg. með þáltill. þessari, margar þarfar ábendingar. Það mætti hugsanlega vinna þessi mál samhliða öðrum áformum sem nú eru uppi varðandi Austurland. Verði ekki af þeim áformum um stóriðju sem þar eru, sem við vitum ekki á þessari stundu, þá er ljóst að styrkja þarf byggð á Austurlandi.