Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 18:55:39 (539)

2001-10-15 18:55:39# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég benti á það í ræðu minni að sú stofnun sem hefur farið með byggðamálin, Byggðastofnun, þyrfti vissulega á meira fé að halda til þess að veita styrki og lán, á Austfjörðum eins og annars staðar. Auðvitað geta Austfirðingar sótt um fyrirgreiðslu í þeirri stofnun eins og landsbyggðin almennt.

Ég tek undir það með hv. þm. að auðvitað verður að huga að jaðarsvæðum. Ég tel margt gott í tillögu þeirra um að huga sérstaklega að jaðarsvæðum. Eflaust þarf þess bæði sunnar og norðar á fjörðunum. Fjölbreytni í atvinnulífi er það sem við þurfum. Þess vegna hef ég talað fyrir því líka. Við þurfum hina stærri kosti. Það er hluti af fjölbreytninni og í skjóli þeirra munu vaxa upp fjölbreytt störf með hámenntuðu fólki sem mun koma inn á svæðið. Það hefur verið mín sýn. En ég geri ekki lítið úr því að gæta þurfi að því að styrkja jaðarbyggðirnar. En þeim fækkar sem verða í vanda, ef meginhluti íbúanna verður betur kominn þá er auðveldara að rétta hjálparhönd þeim fáu sem eftir yrðu.