Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:21:42 (546)

2001-10-15 19:21:42# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara örstutt í tilefni af ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar. Hann vitnar í skoðanakannanir og segir að sumir vinstri grænir kjósendur vilji virkjun. En ég hef miklu meiri áhyggjur af því hvernig kjörnir fulltrúar matreiða hlutina og taka afstöðu. Ég hef tekið eftir því í dag að allir forsvarsmenn Samfylkingar sem hafa talað mæla mjög fyrir þessu verkefni og fyrir stóriðjuáformum. Þess vegna held ég að gott væri að hv. þm. upplýsti þingheim um það hvort þingflokkur Samfylkingarinnar muni samþykkja þetta verkefni því að þannig hljómar það úr munni þeirra sem tala fyrir hönd þingflokksins. Ég held að það væri ágætt að upplýsa hvort sú liðskönnun sem hv. þm. hefur væntanlega gert leiði til þess að afstaða þingflokksins sé einróma til þessara mála.