Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:27:09 (550)

2001-10-15 19:27:09# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:27]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni þá fullyrðingu hv. þm. að hagsmunir þjóðarinnar við að koma á laggirnar 420 þús. tonna álbræðslu á Reyðarfirði séu miklir.

Það verður að halda því til haga í umræðunni, herra forseti, að um þessa hagsmuni eru mjög skiptar skoðanir og það er ekki eins og kom fram í ræðu hv. þm. einn eða tveir sem hafa stigið fram á sjónarsviðið heldur margir mætir menn sem hafa komið fram með þær skoðanir að hér sé verið að taka gífurlega áhættu. Nægir að nefna grein í Viðskiptablaðinu frá því í vor eftir Axel Hall og Ásgeir Jónsson þar sem þeir gera að umræðuefni þá miklu áhættu sem landsmenn taka með svona mikilli orkusölu til einnar atvinnugreinar. Það er alkunna, herra forseti, að í því að tengja jafnstóran hluta af orkuframleiðslu Landsvirkjunar álverði er gífurleg áhætta fólgin.

Hvaða fyrirtæki ætlar að taka þessa áhættu? Landsvirkjun sem er rekin fyrir fé okkar borgaranna. Landsvirkjun sem greiðir ekki skatt. Landsvirkjun sem treystir sér til að fullyrða það að ríkisstjórnin ætli að ábyrgjast lánsfé sem virðist eiga að verða 100 milljarðar kr. því að ekki er að sjá að Landsvirkjun ætli að fjármagna virkjun sem þarf til að reka þetta álver með öðru en lántökum eða þá með auknu eigin fé. Og hvert mundi hún sækja það? Í vasa okkar. Ég fullyrði því hér, herra forseti, að hv. þm. Einar Már Sigurðarson fer með rangt mál þegar hann segir að einungis einn eða tveir hafi stigið fram á sjónarsviðið til að mótmæla því að um arðbærar fjárfestingar og þjóðarhag sé að ræða.