Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:33:33 (554)

2001-10-15 19:33:33# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Skoðanakannanir hefur borið hér nokkuð á góma. Það var vitnað til þeirra fyrr í umræðunni. Ég vitnaði m.a. til þeirra af þeirri ástæðu að hér voru uppi fullyrðingar sem ég taldi að stæðust ekki þegar betur væri að gáð.

Annars vegar var talað fyrir hönd allra Austfirðinga, að þeir vildu þetta álver og væru allir stuðningsmenn þess. Ég hygg þó sanngjarnt að viðurkenna að þar finnst umtalsverð andstaða við þetta mál þó hún sé mun minni í þeim landshluta en annars staðar, að mörgu leyti af mjög skiljanlegum ástæðum vegna væntinga þeirra um batnandi hag ákveðins hluta íbúanna.

Að hinu leytinu vitnaði ég til skoðanakannana því máli mínu til stuðnings að þetta væri mjög umdeilt mál meðal þjóðarinnar, það lægi fyrir og ég teldi miklu uppbyggilegri skoðanaskipti að ræða þetta með hliðsjón af þeirri staðreynd. Ég held að ég hafi tekið svo til orða að þjóðin væri klofin í tvær álíka stórar fylkingar. Ég hygg að það séu innstæður fyrir því, bæði í þessari könnun sem hv. þm. vitnaði til þó að það sé sennilega við það að vera marktækur meiri hluti fyrir framkvæmdunum og marktækur minni hluti andvígur þeim. En þar munar ekki miklu, 53% á móti 47. Ef ég man rétt hafa svipaðar vísbendingar komið út úr fleiri könnunum.

Ég er hins vegar ekki einn af þeim sem trúa skoðanakönnunum og taka afstöðu í pólitík út frá þeim. Ég áttaði mig á því fyrir löngu að ég hefði lítið að gera í stjórnmálum ef ég nálgaðist málin eins og spurningin snerist um að fara út og taka veðrið og haga sér síðan í samræmi við veðurspána. Ég held að það hafi legið alveg ljóst fyrir að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur mótað skýra afstöðu í þessu máli. Hins vegar er það eðlilegasti hlutur í heimi að einhver hluti stuðningsmanna okkar hafi önnur viðhorf. Þannig er alltaf í öllum umdeildum málum, einhver skörun í því milli stuðningsmanna flokka eins og m.a. kemur fram í þessari könnun, að hörðustu stuðningsmenn stóriðjuframkvæmdanna, flokkar sem bera þær sérstaklega fyrir brjósti eins og Framsfl., býr við að drjúgur hluti stuðningsmanna hans er þeim andvígur.