Átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni

Mánudaginn 15. október 2001, kl. 19:38:57 (557)

2001-10-15 19:38:57# 127. lþ. 10.6 fundur 5. mál: #A átak til að treysta byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 127. lþ.

[19:38]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að málið er umdeilt og að allir þættir málsins eru umdeildir. Ég var aðallega að gera athugasemdir við að gefið sé í skyn að gífurlegar deilur væru um hinar þjóðhagslegu forsendur. Það held ég að sé ekki. Auðvitað eru deilur um ákveðnar forsendur í útreikningunum en ekki svo miklar um módelið sem notað er til þessa að reikna áhrifin.

Hins vegar er einnig ljóst að mikill misskilningur hefur verið á ferðinni, og það kemur býsna vel fram m.a. í athugasemdum Þjóðhagsstofnunar við úrskurð Skipulagsstofnunar. Þar var vitnað um ýmislegt og í pappírum frá Þjóðhagsstofnun er í tvígang fjallað um úrskurðinn og þá eru notuð mjög skýr orð. Þjóðhagsstofnun segir þar um ákveðin atriði í úrskurðinum, einfaldlega: ,,Þetta er alrangt, þetta er rangt.``

Það er í raun ekki hægt að tala miklu skýrar um málin, þ.e. þarna var um slíkan misskilning að ræða að Þjóðhagsstofnun valdi svo sterk orð að segja: ,,Þetta er alrangt, þetta er rangt.``