Fjarskipti

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 13:53:17 (566)

2001-10-16 13:53:17# 127. lþ. 11.4 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:53]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Út af orðum hæstv. samgrh. um orð mín um okur á heimtaugagjaldi þá vil ég að það komi skýrt fram að það voru ekki mín orð. Ég minntist hins vegar á orðalag samkeppnisaðila Símans á fundi samgn. þegar fjallað var um sölu Landssímans.

Ég hef ekki haft þau gögn undir höndum sem gerðu mér kleift að vega og meta hvort um okur er að ræða eða ekki. Ég vil að það komi skýrt fram að samkeppnisaðilarnir töldu þetta nálgast okur. Það voru samkeppnisaðilarnir sem orðuðu það þannig að þessi gjaldskrá, eins og hún er byggð upp, það kostnaðarmat sem lagt er fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til þess að samþykkja eða hafna heimtaugagjaldinu, væri óeðlileg vegna þess að það væri hvati til að auka kostnað við heimtaugar til þess að fá hærra gjald.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. samgrh. að þetta tryggir að ekki sé verið að selja þetta á of lágu verði til þess að svína á samkeppnisaðilanum. En samkeppnisaðilar orðuðu það líka þannig að þetta skapaði möguleika á því að færa tekjur milli liða hjá Landssímanum sem heldur utan um heimtaugakerfið. Þannig er líka hægt að nálgast þetta í þá áttina. Með öðrum orðum, menn sögðu stutt og laggott: Hversu margir eru starfsmennirnir og hve mikill er hinn eiginlegi kostnaður við heimtaugarnar? Kostnaðurinn var sá sem Póst- og fjarskiptastofnun hafði samþykkt. Um þetta tjáði sig ekki verri maður en Eyþór Arnalds, forstjóri Íslandssíma, á fundi með samgn.

Það er sem sagt klárt að ég hef ekki haft aðstöðu eða þekkingu til að leggja mat á kostnaðinn, við verðum að taka þetta trúanlegt. En þeir sem starfa í þessum bransa höfðu þessar áhyggjur. Ég get reyndar sagt, svona þegar maður lítur á tölurnar og fer að leika sér með þær --- ef maður ruglast ekki á núllunum við að margfalda þær á blaði --- að tekjur Landssímans eru eitthvað um 160 millj. á mánuði af þessum heimtaugum. Ég ætla hins vegar ekki að leggja neinn dóm á kostnaðinn eða annað slíkt í þessu sambandi. Það er sannarlega rétt að þetta kostnaðarmat er unnið eftir gögnum sem Landssíminn safnaði og Póst- og fjarskiptastofnun hefur farið yfir og samþykkt.

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta það koma skýrt fram, án þess ég ætli að orðlengja það meira --- enda held ég að það sé best að þetta frv. komist sem fyrst til samgn. og þarf ekki að teygja tíma Alþingis við að ræða þetta sjálfsagða mál sem hér er --- að það voru ekki mín orð að þetta væri okur, það voru orð samkeppnisaðilanna.