Fjarskipti

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 13:56:33 (567)

2001-10-16 13:56:33# 127. lþ. 11.4 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Örstutt. Það sem við erum að ræða hér í fyrsta lið er svokallað jöfnunargjald. Ég verð alltaf dálítið hvumpinn þegar ég heyri orðið ,,jöfnunargjald`` vegna þess að það á væntanlega að jafna vöruverð eða eitthvað slíkt. Hér er ekki um það að ræða. Hér er um það að ræða að leggja gjald á alla símnotendur til að greiða alþjónustu, þar á meðal öryggisþjónustu, Neyðarlínuna og annað slíkt, sem hugsanlega finnast einstök dæmi um hjá símnotendum að þeir hafi ekkert við að gera. Ég get séð fyrir mér fyrirtæki sem er í rekstri og þarf aldrei á Neyðarlínunni að halda. Þá vaknar spurning um hvort þetta sé yfirleitt þjónustugjald, hvort ekki sé um að ræða skatt á það fyrirtæki.

Gangi maður út frá því að hér sé um skatt að ræða þá verður maður dálítið efins um hvort hægt sé að framselja skattlagningarvald til þess aðila sem hér á að ákvarða gjaldið, sem er Póst- og fjarskiptastofnun, hvort Alþingi megi framselja skattlagningarvaldið með þessum hætti. Ég vil að hv. nefnd sem fær þetta til umfjöllunar skoði það mál sérstaklega, hvort um sé að ræða skatt eða þjónustugjald og hvort öruggt sé að allir þeir sem greiði þetta gjald noti þá þjónustu sem það á að fjármagna.

Þetta er nefnilega ekki jöfnunargjald í þeim skilningi að það eigi að jafna verðlag á einhverjum vörum, eins og jöfnunargjald á sement eða mjólk o.s.frv., heldur er hér um að ræða gjald sem á að renna til annarrar þjónustu, sem er alþjónusta.