Fjarskipti

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 13:58:21 (568)

2001-10-16 13:58:21# 127. lþ. 11.4 fundur 145. mál: #A fjarskipti# (jöfnunargjald, heimtaugar) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. vil ég segja að það er ljóst að hér er um skatt að ræða sem við erum að ákveða. Það er ákveðið hver skatturinn á að vera. Auðvitað er ekki nokkur einasta leið að segja til um hver þurfi að nota Neyðarlínuna. Þetta er aðferð sem við höfum viðhaft til að tryggja þá starfsemi. Aðferðin er sú að öll fjarskiptafyrirtækin greiði í þennan sameiginlega sjóð og auðvitað koma neytendur að því fyrr eða seinna. Ég vil bara undirstrika að þetta er aðferðin sem við töldum eðlilegt að samþykkja hér á Alþingi á sínum tíma til að afla tekna til þess sem við köllum alþjónustu. Í þessu tilviki erum við eingöngu að tala um Neyðarlínuna.

Að öðru leyti er alþjónusta, eins og við höfum skilgreint hana, m.a. hin almenna síma- og gagnaflutningaþjónusta. Hún er hins vegar ekki styrkt úr jöfnunarsjóði enda er það aðallega Landssími Íslands sem veitir þá þjónustu og mundi greiða í þann sjóð. Þannig er þetta og ég vildi að þetta kæmi skýrt fram hér við umræðuna.