Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 14:36:15 (574)

2001-10-16 14:36:15# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[14:36]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (frh.):

Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. hélt ræðu við umræðu um þetta mál þegar það var á dagskrá hér áður og hann tók svo til orða, með leyfi hæstv. forseta:

,,... hv. þm. Jóhann Ársælsson hafði ekkert umboð til að semja í þessari nefnd. Hann tók ekki mjög alvarlega það hlutverk að reyna að leita sátta í málinu því að hann átti bara að fara með flokkslínuna eins og hún birtist í frv. sem hér er flutt í þriðja skiptið, ekkert eða lítið breytt.``

Hæstv. forseti. Ég þarf að fá að vitna í Morgunblaðið líka. Þar er verið að segja frá umræðum á landsfundi Sjálfstfl. Hér segir:

,,Síðan sagði Davíð: ,,Menn ræða um (niðurstöðu) endurskoðunarnefndar um sjávarútvegsmál eins og hún sé endapunktur. Þessi nefnd hefur skilað áliti með fyrirvara og meiri hluti stjórnarflokkanna hefur náð þar ákveðinni samstöðu. Minni hlutinn er á öðru máli. Síðan gengur málið til sjávarútvegsráðherrans, þaðan til ríkisstjórnarinnar, þaðan til þingflokkanna, þannig að það er margt sem á eftir að gerast í umræðu um þessi mál og auðvitað mun sú vinna sem fram hefur farið hér á fundinum, þær umræður sem hér hafa átt sér stað, sú vinna sem fór fram í sjávarútvegsnefndinni fyrir atbeina sjávarútvegsráðherra sérstaklega hafa mikið að segja um það hvernig þeirri vinnu lýkur. Hins vegar gerðu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni sérstaka tillögu. Þeirri tillögu var hafnað. Þessum tillögum hefur nú skolað hér inn á landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þær felast í breytingartillögum Markúsar Möllers og fleiri. Það er algjörlega ljóst að ef slík tillaga yrði samþykkt yrði vinna sjávarútvegsráðherrans, ríkisstjórnarinnar og þingflokksins alveg fyrir bí. Þannig að tillagan gengur ekki upp og getur ekki í raun markað stefnuna fram á veginn. Það er áríðandi að sjávarútvegsráðherrann, ríkisstjórnin og þingflokkurinn hafi þá leiðsögn frá landsfundinum sem í nefndaráliti sjávarútvegsnefndarinnar felst. Ég vænti þess að landsfundarfulltrúar muni átta sig á þessari mikilvægu niðurstöðu.``

Að þessum orðum loknum fór fram skrifleg atkvæðagreiðsla ...``

Skilaboðin voru ákaflega skýr. Hvað var á ferðinni þarna? Var það ekki flokkslínan? Hver var það sem var fastur í flokkslínu? Var það ekki hæstv. sjútvrh.? Var þetta ekki lýsing hæstv. forsrh. á því hvernig hæstv. sjútvrh. dinglaði á þessum öngli allan tímann og hafði ekki umboð til að semja um eitt eða neitt í þessari nefnd? Og það stóð aldrei til. Frá upphafi voru það stjórnarflokkarnir sem sömdu um þetta mál og tróðu þessari tillögu inn í auðlindanefndina sem skilaði henni svo út. Síðan hefur hæstv. sjútvrh. unnið að þessu máli í framhaldi með þeim hætti sem við þekkjum þó að hann sé að bregða mér um það að ég hafi verið á flokkslínunni og ekki getað hreyft mig um spönn.

Hvaða þýðingu hefur tillaga Sjálfstfl.? Er taumurinn uppi í Framsfl.? Ég spyr. Sjálfstfl. virðist hafa tekið þá ákvörðun á landsfundinum að þessi lína yrði bara keyrð. Við vitum ekki hvort Framsfl. mun hafa þá afstöðu eða ekki. En ég sé ekki að það sé nein leið til baka fyrir Sjálfstfl. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hefur hann nokkra möguleika til að semja um eitthvað annað en landsfundur Sjálfstfl. komst að niðurstöðu um? Er sú leið sem samþykkt var á fundi Sjálfstfl. orðin eini möguleiki Sjálfstfl. í sjávarútvegsmálum? Hefur það þá ekkert að gera með samstarfsflokkinn heldur, hvað þá stjórnarandstöðuna, hvernig framhaldið á að verða? Ef ekki verður farin veiðigjaldsleið þá virðist hæstv. ráðherra ekki hafa umboð til eins eða neins. Ég spyr þess vegna: Er taumurinn uppi í Framsfl.? Er Framsfl. sammála þessari niðurstöðu sem fékkst á landsfundinum?

Svo langar mig að spyrja: Hvaða þýðingu hefur þessi niðurstaða? Hefur hæstv. sjútvrh. farið yfir það og velt því fyrir sér hvaða breyting verður í raun á úthlutun veiðiréttar ef hið opinbera fer að úthluta veiðirétti gegn gjaldi? Verður ekki eðlisbreyting á úthlutun veiðiréttar ef það er gert? Munu ekki vakna möguleikar annarra en þeirra sem nú hafa fengið úthlutunina þegar sú úthlutun verður tekin upp gegn gjaldi sem Sjálfstfl. er núna búinn að samþykkja?

Auðvitað er ákveðin eftirgjöf fólgin í því sem Sjálfstfl. var að gera á þessum landsfundi, sem sagt viðurkenning á því að þjóðin eigi þetta. En sú viðurkenning á ekki að ná lengra en það sem raun ber vitni að er í tillögum þessarar nefndar. En að hægt sé að úthluta miklum verðmætum frá hinu opinbera til einhvers útvalins hóps inn í langa framtíð án þess að neitt liggi fyrir á hvaða verðleikum það sé gert, það hlýtur að kalla á áframhaldandi átök um þetta mál.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að ekki muni vakna nein réttindi annarra til þess að fá úthlutun gegn gjaldi ef þeir sækja um því að fram á þennan dag áður en nýja kerfið sem Sjálfstfl. er að boða tekur gildi, var þetta réttur útgerðar byggður á fortíð. En þegar menn fara að láta af hendi réttindi þjóðarinnar úr sameign gegn gjaldi hlýtur að verða eðlisbreyting á þessu. Menn verða að horfast í augu við að það þarf að skilgreina þessa hluti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann látið skoða þetta? Hefur hann látið lögfræðinga skoða þetta?

Ég endurtek spurningu mína: Er Sjálfstfl. þá búinn að loka fyrir alla aðra möguleika en þá sem voru samþykktir þarna eða hefur manni sést yfir eitthvað í samþykktum landsfundar? Er hæstv. ráðherra sem sagt gjörsamlega fastur á flokkslínunni?