Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:32:25 (581)

2001-10-16 15:32:25# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vill ætla að hér hafi verið greitt lausnargjald Sjálfstfl. til LÍÚ. Vissulega er öllum ljóst að þær hugmyndir um gjaldtöku, þ.e. þær upphæðir sem nefndar eru, eru á svipuðum nótum og það sem þegar er greitt. Mig langar samt að reyna betur og bið hæstv. ráðherra að koma inn á það hér á eftir hvort það geti verið hreint og klárt misminni af minni hálfu að hér í þessum sal hafi sjálfstæðismenn hver um annan þveran --- ég nefndi það áðan, herra forseti, og fyrirgefðu orðbragðið --- hrópað og galað að þeim mönnum sem voguðu sér að ræða um réttlætið sem í því fælist að þeir sem nýttu veiðiheimildir greiddu eigenda þeirra, þjóðinni, auðlindagjald, eðlilegt afnotagjald. Það eru ekki mjög mörg ár né mörg missiri síðan sömu menn töldu þetta fásinnu og algerlega út úr kortinu. Að því leyti, herra forseti, er þó fagnaðarefni að menn séu komnir til byggða og síðan má lagfæra auðvitað gjaldtökuaðferðina sem slíka. Þetta er þó lítið hænufet. Þá á bara eftir að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu líka, fara hina svokölluðu fyrningarleið, ná aflaheimildum aftur til eigandans sjálfs. Menn verða með öðrum orðum að fylgja þessari sókn eftir.

Er ekki hv. þm. sammála um að að þessu leyti miði þó örlítið í rétta átt, í ljósi fortíðarinnar, í ljósi hinnar hörðu afstöðu gegn hugmyndum af þessum toga sem hv. þm. og sveitungi minn hefur áður staðið fyrir?