Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 15:44:25 (588)

2001-10-16 15:44:25# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Tillögur Samfylkingarinnar um sjávarútvegsmál liggja ljósar fyrir. Í þessari umræðu hefur komið fram að stjórnarandstaðan styður að farin verði fyrningarleið þó að kannski sé ekki hægt að tala um fyrningarleið undir einu merki vegna þess að það er ekki sama hvernig henni er hrint í framkvæmd. Það hefur líka komið berlega í ljós í umræðunum.

[15:45]

En það eru fleiri en stjórnarandstaðan sem aðhyllast breytt fiskveiðistjórnarkerfi á grunni fyrningarleiðar. Við sáum á landsfundi sjálfstæðismanna að þar er drjúgur hópur sem vill fara þá leið til þess að vinda ofan af kerfinu. Og við vitum af vinnunni í endurskoðunarnefnd að fulltrúi framsóknarmanna þar vill fara þessa sömu leið. Ég vara hv. þingmenn við því að setja verð á aflaheimildir þegar talað er um fyrningarleið og miða við núverandi verðlag á mörkuðum vegna þess að það er ekki marktækt --- það er svo lítið magn sem fer á markaðinn --- en eins og ég sagði er ekki sama hvernig fyrningarleið er hrint í framkvæmd. Eins og kunnugt er höfum við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lagt fram tillögu sem byggir á þríliðun á ráðstöfun þeirrar aflahlutdeildar sem er fyrnd þannig að það kemur allt öðruvísi út í raun og veru.

Virðulegi forseti. Ég kom í pontu aðeins vegna þess að hæstv. sjútvrh. er í þingsalnum og hlustar á mál okkar. Ég vil nota tækifærið í ljósi þeirrar stöðu sem uppi er á Alþingi. Það er alveg augljóst að stjórnarandstaðan, auk verulegs hluta beggja stjórnarflokkanna, margra þingmanna og margra almennra félaga þeirra, kallar á breytingar. Það er líka jafnaugljóst, held ég, öllum hér að það verður engin sátt um þá línu sem gefin var í endurskoðunarnefndinni um að viðhalda að langmestu leyti óbreyttu kerfi. Og þá vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. þegar hann metur stöðuna hér í þingsalnum og þegar hæstv. ráðherra metur stöðuna á sínum heimavígstöðvum í sínum flokki og síðan hjá samstarfsflokknum hvernig hann líti á framhald þessara mála. Ég er viss um að menn vilja reyna allt sem þeir geta til þess að koma að málinu á nýjan leik með það fyrir augum að finna lendingu þannig að allir geti sem best við unað.

Tillögur sjálfstæðismanna og meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar eru bara ávísun á að menn haldi áfram að keyra með þessi mál í bullandi ósátt við þorra landsmanna. Það liggur alveg klárt fyrir.

Síðan eru líka inni í þessum tillögum meiri hluta endurskoðunarnefndarinnar mjög erfið mál sem við hv. þm. getum náttúrlega aldrei sætt okkur við að verði ekki breytingar á, nefnilega áframhaldandi samþjöppun og stækkun fyrirtækja. Við vitum til hvers það leiðir þó að menn séu að tala um framlög til byggðanna upp á 350--500 millj. til þess að slá á það. Síðan eru stórhættuleg atriði inni í tillögunum sem manni sýnast eiga að opna fyrir og það er verslun með áunninn úthafsveiðikvóta Íslendinga. Það er aldeilis ekkert smámál í því farvatninu.

Ég get ekki séð fyrir mér að við höfum nokkurt leyfi til þess hér að stuðla að lagabreytingum sem gera það mögulegt að áunninn réttur Íslendinga í úthafinu geti gengið kaupum og sölum til útlanda þannig að þjóðin standi uppi með það að eiga e.t.v. engan úthafsveiðikvóta eftir að næsta tímabili í sjávarútvegsmálum gengur yfir. Eins og menn vita gengur þetta upp og niður og menn sem eru handhafar kvóta hafa neyðst til þess að selja þegar illa gengur, ef þeir hafa haft leyfi til þess, og það er engan veginn hægt að sætta sig við þá óáran.

Það er einvörðungu þessi spurning sem ég vildi koma á framfæri, virðulegi forseti, þ.e. hvernig hæstv. sjútvrh. sjái fyrir sér framhaldið, hvort hann geti fallist á einhvers konar aðkomu að þessum málum á nýjan leik til að freista þess að ná sáttum í málinu og hvaða leiðir hæstv. ráðherra telji færar til þess.