Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:09:00 (590)

2001-10-16 16:09:00# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði satt að segja að bíða eftir ræðu hæstv. ráðherra og bregðast við henni en er tímabundinn vegna fundar annars staðar innan örfárra mínútna. Ég ætla því að nota tækifærið núna enda er sennilega ekki mjög margt að frétta hjá hæstv. sjútvrh. Það mátti glögglega sjá í Morgunblaðinu í dag þar sem hæstv. sjútvrh. gerir grein fyrir afstöðu sinni þegar afstaða Sjálfstfl. til hinna stóru mála liggur fyrir. Þá sagði nefnilega hæstv. sjútvrh., með leyfi forseta:

,,Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tók fram í upphafi máls síns að hann hefði ekki verið talsmaður auðlindagjalds. ,,En ég hef heldur ekki litið svo á að ég ætti að vinna gegn auðlindagjaldi. Ég hef litið svo á að mitt hlutverk væri að leita sátta í þessu máli og finna lausn sem allir gætu sem best við unað.````

Hefði ég ekki sagt frá því fyrir fram, þá mætti ætla að hér væri að tala sáttasemjari ríkisins en ekki sjútvrh. þjóðarinnar. Hann hefur enga skoðun á þessu máli. Hann mun bara gera það sem honum er sagt.

Síðar í þessari sömu grein er að finna viðtal við hæstv. forsrh. Þar segir hann um þessi drög að ályktun um sjávarútvegsmál orðrétt:

,,Í ályktuninni er ekki hvert orð eins og ég vildi hafa það nákvæmlega.``

Síðan sagði hann: ,,... en þetta er besta niðurstaðan sem við gátum sett saman undir forystu sjávarútvegsráðherrans.``

Hún væri með öðrum orðum orðið langtum betri hefði ekki forustan verið í höndum sjútvrh. Þetta var lymskuleg sneið hjá hæstv. forsrh. Það væri ekki betur hægt að gera undir forustu sjútvrh. Hann hefði auðvitað vilja hafa þetta öðruvísi. Þetta er í raun, herra forseti, þó að virki broslegt, sannleikurinn um þennan flokk, Sjálfstfl., þegar kemur að hinum stóru málum.

Þessari litlu frétt fylgir mynd af nokkrum fulltrúum, væntanlega á fundi þessarar sömu sjútvn. á þessum sama landsfundi. Hverja má m.a. sjá þar? Fremstan í flokki sér maður Kristján Loftsson, sveitunga okkar hæstv. sjútvrh. og andstæðing hans í hvalamálinu og mesta gagnrýnanda sem hann hefur fyrir hitt í þeim efnum. Þeir eru á öndverðum meiði í því máli. Við hlið hans er hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur allt, allt aðra stefnu en hér hefur nokkru sinni verið nefnd. Hann vill senda veiðiheimildirnar heim í hvert hús. Þar rétt fyrir aftan glittir í hv. þm. Gunnar Birgisson. Hann talaði mjög fyrir því á þessum fundi að fara hina svonefndu fyrningarleið sem menn hafa rætt um í því frv. sem hér hefur verið fyrir lagt.

Með öðrum orðum eru þrír talsmenn ólíkra sjónarmiða á sömu myndinni. Í sömu fréttinni er síðan að finna viðtal við hæstv. forsrh. sem vildi hafa þetta öðruvísi en að betur hafi ekki verið hægt að gera undir forustu hæstv. sjútvrh. Sjútvrh. svarar síðan því að hann hafi eiginlega enga skoðun á þessu máli, hvorki með auðlindagjaldi né heldur á móti því, hann sé bara sáttasemjari ríkisins.

Herra forseti. Þetta er skrýtinn flokkur, Sjálfstfl. Og hann þykist stjórna þessu landi. Hann þykist í fararbroddi og marka stefnu til lengri framtíðar.

Herra forseti. Ég þekki þennan flokk býsna vel. Ég hef bæði þurft að vinna með honum, gerði það í ríkisstjórninni 1991--1995 og ég minnist þess að ef við alþýðuflokksmenn nefndum hugtakið ,,auðlindagjald`` þá ætlaði allt vitlaust að verða á ríkisstjórnarheimilinu. Um síðir tókst okkur hins vegar að koma ígildi þess gjalds inn, þ.e. þróunarsjóðsgjaldinu, en að það mætti kalla það auðlindagjald, gjald fyrir afnot af þessari auðlind, því var ekki til að dreifa. Á það mátti Sjálfstfl. ekki heyra minnst, ekki eitt aukatekið andartak. Auðvitað vissi ég betur þegar ég spurði hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson áðan um hans reynslu í þessum efnum. Sjálfstfl. er nefnilega að sveigja af braut. Hann er auðvitað, herra forseti, eins og Barbapabbi. Hann breytir um lit og lögun eftir því sem honum hentar best og þykir best. Svo koma þessir sömu menn hér, herra forseti, og vilja halda því fram að Samfylkingin, breiðfylking jafnaðarmanna með 17 þingmenn, sé sundurleit og ekki sjálfri sér samkvæm þegar veruleikinn er auðvitað sá að Sjálfstfl. er samsafn ólíkra sjónarmiða, hefur alltaf verið það og mun alltaf verða. Það endurspeglast best í myndinni sem ég minntist á áðan.

Þess vegna held ég, herra forseti, að það þjóni engum tilgangi að spyrja hæstv. sjútvrh. um nokkurn skapaðan hlut. Hann má ekki segja neitt. Hann mun reyna að safna saman sjónarmiðum og reyna að búa til úr því eitthvað í líkingu við heillega sýn og heillega stefnu sem flestir geti sætt sig við. En hins vegar er þessi sáttasemjari í sjávarútveginum ekki allra því að í þessari stuttu grein segir hann líka, með leyfi forseta:

,,... ég held að sú niðurstaða sem þar hefur komið fram sé vel til þess fallin að við getum náð um hana sátt.``

Og áfram heldur Árni: ,,Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er stór hópur sem er algjörlega á móti því að veiðileyfagjald sé lagt á. Þeir aðilar í þeim hópi sem fallast á að veiðigjaldið sé lagt á eru að leggja mikið á sig til að ná sáttum í málinu.`` Hann sagði hins vegar að þeir hinir, sem vildu fyrningarleiðina, séu einstrengingslegir í afstöðu sinni. Þeir vilja með öðrum orðum fá að ráða öllu, segir hæstv. sjútvrh., sáttasemjari Sjálfstfl.

Herra forseti. Ég legg til að hús sjávarútvegsins, a.m.k. skrifstofur ráðherra, verði fluttar upp í Borgartún. Sáttasemjari ríkisins á þar heima.