Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:28:19 (593)

2001-10-16 16:28:19# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Já, sannarlega er þetta góð ábending sem kemur fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að flutningur kvótans, t.d. af Vestfjörðum, hafði mjög mikil áhrif á ekki bara eingöngu atvinnulíf heldur t.d. verð á fasteignum. Ég vil taka undir það sem hv. þm. bendir á að þegar aflaheimildir fara úr byggðinni sem eru undirstaða atvinnunnar, þá rýrnar náttúrlega þar allt. Við höfum séð hvernig fasteignaverð hefur lækkað á landsbyggðinni og það voru margir sem bentu á að það væri óréttlátt hversu há fasteignagjöldin þar væru miðað við fasteignaverð og töluðu um að lækka ætti fasteignaskattinn. En auðvitað hefði besta aðgerðin verið að skapa það umhverfi að fasteignirnar hefðu hækkað aftur í verði. Mig langar að geta þess í þessu sambandi að t.d. á Suðureyri, einu fegursta plássi landsins, lækkuðu fasteignir til muna þegar togarinn var farinn þaðan, Elín Þorbjarnardóttir, og hrun varð í fiskvinnslunni en þegar smábátarnir byrjuðu að róa þar hækkaði verð á fasteignum og í þau hús sem voru farin að tæmast og engar gardínur voru fyrir komu gardínur og fólk, það kom bjartsýni, gleði og von sem núna er verið að reyna að drepa.