Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:52:43 (605)

2001-10-16 16:52:43# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:52]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér mjög á óvart að ráðherrann skuli falla í þá gryfju að koma með slíkan samanburð. Við erum stöðugt að tala um möguleikann til sjósóknar. Þegar búið er að færa aflaheimildirnar á svo fáar hendur eru það þær hendur sem ráða hvar er veitt og hvar lagt upp. Ég er að lýsa muninum á fjórða áratugnum á Ísafirði og í dag. Það er grundvallarmunur og þetta eru grundvallaratriði.

Herra forseti. Auðlindanefndin náði mikilli sátt og maður lítur með aðdáun á það nefndarstarf. Það sama verður ekki sagt um seinni nefndina sem endaði í bullandi ósátt. Hér hefur komið fram að útgerðin hefur ekki verið að borga nema eiginlega þróunarsjóðsgjaldið og ég spyr, enn á ný, af því að þessu skrefi var hælt sem landsfundurinn er að taka: Hvaða skref verður það? Hverju má búast við af þessu veiðigjaldi?