Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 16:55:04 (607)

2001-10-16 16:55:04# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., ÖHJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[16:55]

Örlygur Hnefill Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að eignir fólks á landsbyggðinni séu hluti af útgerðarkostnaðinum --- einn á bát, annar á fiskvinnslu. En síðan er það fólkið sem byggir eignir sínar í kringum kerfið og er búið að vinna með því alla tíð og hefur treyst á það. Þegar báturinn er seldur, og kvótinn, verður það ekki endurreist. Fólk hefur áður misst báta --- bátar hafa farist allt frá þjóðveldisöld --- en menn höfðu rétt á því að endurnýja skip sín og gátu þannig treyst búsetuna. Þetta er stóri munurinn. Það verður að líta til þess og tryggja þessar eignir fólks sem hefur bundið þær í sjávarplássunum í trausti þess að þar gæti það búið, og það fólk hefur verið svipt gríðarlega miklum eignum.