Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:05:46 (613)

2001-10-16 17:05:46# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Litlu verður Vöggur feginn ef það er tákn um nýja tíma í útgerð á Íslandi að gera út 6 tonna skip. Það er ekki að ég sé að setja út á þá útgerð. Ég tel að hún sé afskaplega skynsamleg oft og tíðum. En það er verið að setja fótinn fyrir hana og framtíð hennar með þeim lögum sem menn ætla að koma í gegnum Alþingi. Af því að hæstv. ráðherra talaði um að ég hefði lýst hugarfari mínu, og hann spurði af hverju við hefðum ekki gengið lengra til móts við þá, þá er það bara þannig að ég á bókstaflega erfitt með að segja frá því hversu langt ég var búinn að ganga til móts við þeirra sjónarmið þegar að þessum kafla kom. Það var ekki um stóra hluti að semja í þessari nefnd og ég tel að við höfum gengið eins langt og mögulegt var til móts við þá sem við vorum þarna að reyna að semja við. Hæstv. ráðherra kýs að kalla það að ég hafi slegið á sáttarhönd, og hann má svo sem hafa það orðalag mín vegna.

Ég tel reyndar að full ástæða hafi verið til að slá á þá sáttarhönd sem þar var rétt fram, svo lítið var þar komið til móts við þau sjónarmið sem ég hef barist fyrir. Sjónarmið mín eru þau að í framtíðinni komist á jafnræði til að nýta þessa auðlind, að þessi atvinnuvegur verði jafnsettur öðrum hvað nýliðun varðar og að þar sé réttlæti haft í heiðri og jafnræði til að nýta auðlindina eins og aðrar auðlindir. Það væri þá í fullu samræmi við allar aðrar tillögur um það hvernig eigi að nýta auðlindir á Íslandi. Hvers vegna stöndum við í þessu þrasi um eina auðlind sem ekki má hafa reglur sambærilegar öðrum? Það er vegna þess að Sjálfstfl. er að ganga erinda einhverra fárra á kostnað allra hinna.