Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:30:52 (618)

2001-10-16 17:30:52# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Sú spurning sem hv. þm. hlýtur að svara og verður að svara er þessi: Hvað er á bak við þá fullyrðingu hans að sameign þjóðarinnar hafi verið afhent, með leyfi hæstv. forseta: ,,tilteknum aðilum án endurgjalds``? Hvaða aðilar fengu aukin réttindi með kvótakerfinu? Hverjir voru það? Var það Haraldur Böðvarsson? Er það eitt af þessum fyrirtækjum sem hv. þm. hefur sérstaklega í huga að hafi fengið án endurgjalds rétt til veiða á Íslandi? Ég hélt að það fyrirtæki hefði verið um áratugi í sjávarútvegi. Ég man ekki betur en að Haraldur Böðvarsson hafi byrjað þilskipaútgerð fyrir 1900 og meðal annars í Njarðvíkum eða Keflavík. Ekki man ég betur. Fékk þetta gróna fyrirtæki eitthvað án endurgjalds?

Hv. þm. er að þjónusta smábáta á Akranesi og Snæfellsnesi. Var smábátakörlunum sem ég get suma nafngreint afhentur einhver réttur án endurgjalds á því herrans ári 1984? Var það? Eða höfðu þessir menn verið sjómenn og höfðu þessir menn byggt upp sín fyrirtæki? Og á næstu árum á eftir voru þeir sviptir rétti til að veiða í sama mæli og áður. Er það að afhenda þeim án endurgjalds einhver sérréttindi?