Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:48:53 (629)

2001-10-16 17:48:53# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., Flm. JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:48]

Flm. (Jóhann Ársælsson) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér er nú nokkur vandi á höndum. Hér hefur hæstv. forseti þingsins komið inn í umræðuna eftir að manni eru lokaðir flestir möguleikar á að taka þátt í henni. Ég hef svo sem ekki nein ráð handa hæstv. forseta um hvernig eigi að bregðast við þessu en það væri kannski ráð að velta því fyrir sér hvort koma ætti á námskeiði fyrir hv. þm. til þess að þeir viti örugglega hvernig umræðum skuli háttað hér, þannig að ef þeir ætla að taka þátt í þeim þá sé hægt að veita andsvör og koma til skila því sem maður vill í þessari umræðu.

Ég hitti hæstv. forseta þegar það lá fyrir að það var búið að fresta þessari umræðu sem nú er í gangi (Gripið fram í.) og ég fór fram á það við hann að þessi umræða yrði sem allra fyrst. En ég tók það sérstaklega fram að auðvitað (Gripið fram í.) þyrftum við báðir að geta verið viðstaddir hana. (Gripið fram í: Hvað er rangt við fundarstjórn forseta í þessu efni?) Hæstv. forseti stjórnar hér fundi og gerir þá athugasemdir við það sem ég er að segja hér ef honum finnst það ekki við hæfi.

Ég tel hins vegar fulla ástæðu til (Gripið fram í.) að menn velti því alvarlega fyrir sér hvernig stendur á því (Gripið fram í: Er bannað að fara á mælendaskrá?) að hæstv. forseti gat ekki mætt fyrr til umræðunnar. Ég er auðvitað að mótmæla því. (Gripið fram í.) Mér finnst það heldur lítilmannlegt að koma til umræðunnar þegar maður hefur lokið öllum sínum ræðum og fær ekki tækifæri til að svara almennilega fyrir þær spurningar sem hæstv. aðalforseti þingsins leggur hér fram og þær ásakanir sem falist hafa í máli hans.