Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 17:53:09 (634)

2001-10-16 17:53:09# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[17:53]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Eftir síðustu ræðu 1. flm. efast maður nú um að flutningsmenn þessa máls hafi búist við að um það yrði mikil umræða. Þeir óska þess kannski sérstaklega að um þessi mál sé minni umræða en þingmenn almennt vilja. Ég verð að lýsa furðu minni á því að hægt sé að gera athugasemd við það að rætt sé hér um frv. sem eru lögð fram með eðlilegum hætti.

Hingað til hefur það verið venja, eftir því sem ég best veit, að sá sem er í forsvari fyrir mál sé síðastur á mælendaskránni og passi upp á það sjálfur að enginn komi eftir það, geri bara samkomulag við hæstv. forseta. Að vera að agnúast úti í þetta er alveg með ólíkindum. Ég vona að ég þurfi aldrei að heyra þetta aftur.

Ég ætlaði aðeins að tala stutt, herra forseti, um þetta mál sem, ef af yrði, yrði stórkostleg og stórhættuleg breyting á rekstri helsta atvinnuvegar þjóðarinnar. Sjávarútvegurinn skiptir öllu fyrir afkomu þessarar þjóðar og þá skiptir það öllu hvernig þeim málum er stjórnað.

Ég hef tekið til máls einu sinni áður í þessari umræðu. Ég spurði þá um ýmis atriði sem mér fannst ekki koma fram hvernig ætti að stýra. Ég hef t.d. --- og síðasti ræðumaður kom vel inn á það --- spurt hv. flm. að því hvernig eigi að stjórna veiðum í framtíðinni, ég tala ekki um á næstu 10 árum, þegar taka á 10% af aflaheimildum hvers skips fyrir sig, þjóðnýta og bjóða hæstbjóðanda. Ég ætlaði að fá það sérstaklega fram hjá hv. flm.: Hvað felst í því að selja aflaheimildir til hæstbjóðanda? Eru þær þá boðnar hverjum sem er?

Ég sé að hér er talað um útgerðarfyrirtæki. Það stendur hér að það megi selja þetta hæstbjóðanda og tekjurnar renni til Hafrannsóknastofnunar, stendur hér. Svo segir, með leyfi forseta:

,,Útgerðir allra skipa sem leyfi hafa til veiða samkvæmt lögum þessum skulu hafa jafnan rétt til að bjóða í þær aflaheimildir sem í boði verða.``

,,Útgerðir allra skipa`` þýðir í raun ekki að það sé bundið við skip. Það þýðir að það séu útgerðir. Útgerðir eru fyrirtæki. Geta verið fyrirtæki, þess vegna margra skipa og frystihúsa. Þetta getur verið fyrirtæki sem á alls konar aðrar eignir og getur notað þessar aflaheimildir að vild, getur þess vegna deilt þeim til kaupfélagsins sem er einnig í eigu útgerðarinnar. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Ég sé ekki annað en að þau göt sem eru í þessu hér leiði til þess að aflaheimildir geti farið á hendur hvers sem er í landinu.

Ræðan sem hv. 1. þm. Norðurl. e. flutti hér áðan var ágæt. Í henni endurspeglaðist vel hvernig staðið hefur verið að útgerðarmálum á Íslandi frá öndverðu. Við þekkjum það vel að áður en til þess kom að stjórna þyrfti veiðum réðu útgerðarmennirnir sjálfir því hvernig farið var með afla og hvenær farið var á sjó. Þeir stjórnuðu skipum sínum. Þeir báru ábyrgð á skipinu, fjárfestu í því og réðu mannskapinn um borð. Það voru þeir sem réðu skipstjórana sem stýrðu skipunum eftir að þau voru komin frá landi. Eigi að síður var það útgerðin sem réð ráðstöfun aflans, nema í einstöku tilvikum, er farið var út í sérstaka leigu sem gekk til kirkna og annarra aðila. En það er annað mál. Í meginatriðum var málið rekið þannig að útgerðir og útgerðarmennirnir réðu skipunum, aflanum og því hvernig veitt var.

Það er ekki fyrr en farið var að stjórna veiðunum að einhverju marki að deilur komu upp um hvernig ætti að standa að veiðum, enda urðu skipin mun stærri á seinni árum og miklu flóknari veiðiskapur en áður hafði þekkst. Eigi að síður hefur það verið innprentað í þjóðina frá upphafi að útgerðarmaðurinn eigi skipið og skipinu fylgi þær aflaheimildir sem útgerðin og skipverjar hafa náð inn á það.

Þær hugmyndir sem hér eru, um að taka þennan rétt af útgerðinni og færa hann yfir til ríkisins, þær aflaheimildir sem skipið er búið að afla sér, er grundvallarbreyting sem stríðir gegn allri vitund okkar um hvernig eigi að skapa sér eignarrétt í þessu landi.

Það kemur mér í sjálfu sér ekki mjög á óvart að menn með sósíalískar skoðanir, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson, skuli koma með slíkar hugmyndir. Hugmyndir hans um ríkið hafa líka ávallt verið þannig að réttast væri að ríkið ætti allt og stjórnkerfi Ráðstjórnarríkjanna hefur alltaf verið það ofarlega í huga hans sem alþýðubandalagsmanns og sósíalista. Það kemur mér því ekki á óvart þó hann vilji að aflaheimildirnar verði hjá ríkinu, að ríkið leigi þetta út og síðan fái þeir sem vilja til sín heimildirnar.

[18:00]

Með kvótanum 1984 var náttúrlega mjög margt gert sem allir voru sammála um, þ.e. sú breyting að aflaheimildir sem menn höfðu öðlast á reynslutímabili, sem þá var þrjú ár, yrði viðmiðun í kvóta sem útgerðir mættu síðan veiða á hverju ári meðan kvótakerfið yrði við lýði. Kvótakerfið var sett á 1984 og þá í eitt ár til reynslu. Þá var eingöngu um kvótakerfi að ræða. Það var ári seinna sem ákveðið var að flækja þetta og koma inn svokölluðu sóknardagakerfi fyrir skip sem ekki höfðu haft neina reynslu. Það sóknardagakerfi raskaði öllum stýringum svo það var engin leið að átta sig á því hver aflinn yrði á hverju ári og aflinn varð sífellt meiri og meiri en ráðleggingar fiskifræðinga gerðu ráð fyrir þannig að endanlega sprakk kerfið. Og þess vegna var því lokað 1991.

Eftir sem áður hefur af ýmsum ástæðum, m.a. út af smábátum, ekki tekist að hafa neina alvörustjórn á kerfinu. Það má líka segja, herra forseti, að framúrkeyrslan á níunda áratugnum hafi verið svo gríðarlega mikil að fiskstofnarnir hafa í raun ekki átt sér viðreisnarvon eftir það. Ég held að það sé kjarni málsins að fiskstofnarnir hafa aldrei náð sér eftir þá gríðarlegu ofveiði sem varð hér á níunda áratugnum.

Herra forseti. Ég verð að segja að ég hef áður lýst yfir vonbrigðum mínum með hve illa unnið þetta frv. er í rauninni. Ég heyri að hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur ekki gert sér neina grein fyrir því hvernig uppboðin koma til með að verða. Það hefur einnig komið fram hér í umræðunum að flutningsmenn gera sér enga grein fyrir því hvernig landsbyggðin og útgerðin munu geta þróast undir slíku kerfi sem hér er verið að tala um. Samkvæmt þessum hugmyndum er verið að kyrkja útgerðina í 10 ár, smám saman verið að draga allan mátt úr þessu rekstrarformi og bjóða upp á eitthvað alveg nýtt sem enginn gerir sér grein fyrir hvernig muni þróast. Það er alveg augljóst mál að enginn gerir sér grein fyrir hvernig þetta getur þróast.

Við vitum að þegar útgerðin gengur illa gengur líka illa í byggðunum úti á landi. Það gengur alls staðar illa þegar óvissa er um útgerðina og þá er mikil óvissa um byggðirnar sjálfar. Ég heyri það á útgerðarmönnum sem hafa kynnt sér þetta mál að ef þetta yrði einhvern tímann að veruleika er nokkuð ljóst að útgerðarmenn, eins og þeir kallast í dag, hverfa. Ég held að ekki verði gert út nema undir merkjum einhverra fyrirtækja eða lífeyrissjóða, t.d. einhverra stórra fyrirtækja, deCODE eða einhverra annarra, sem eiga mikla peninga og hafa efni á því og vita alltaf fyrir fram að þeir geti boðið það hátt að þeir hafi einhverjar aflaheimildir í höndunum. Þeir einir geta tekið þá áhættu að kaupa sér skip. Það að kaupa sér skip, eins og kerfið er í dag, er í rauninni áhættusamt en það er þó trygging fyrir því að menn eru með einhvern afla á skipið sem þeir eru með svo lengi sem skipið gengur. Eftir það geta menn selt hann eitthvert annað en samkvæmt þessu nýja kerfi eru menn ekki með neina tryggingu, menn eru jafnvel farnir út í milljarðafjárfestingu með lánum sem eru upp á áratugi en hafa ekki neina tryggingu fyrir veiðum nema í eitt ár í senn. Menn geta þannig alveg eins búist við því að á næsta ári eða næstu þrem, fjórum árum hafi þeir enga veiði.

Ég held því að þróunin hljóti að verða sú að það verði einvörðungu fyrirtæki sem alltaf eru með það mikla peninga í höndunum að þau geti yfirboðið ef þau sjá að markaðurinn er að þróast þannig að verðið verði hærra en í fyrra.

Þar með er verið að setja landsbyggðina alla á hausinn. Það er verið að setja landsbyggðina alla um koll með þessum hugmyndum. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé það sem þessir hv. flutningsmenn eru að leggja til. En ég held að þeir hafi því miður, herra forseti, ekki gert sér neina grein fyrir því hvað mundi gerast ef þessar hugmyndir næðu fram að ganga.

Ég held, herra forseti, að þessir hv. þm., eins og svo margir aðrir, séu einfaldlega að skipa sér á bekk með þeim mörgu sem eru að leggja útgerðina í einelti. Það er bókstaflega verið að hundelta það fólk sem stendur í því að gera út skip, sem um leið og oftast nær er að reka mjög öflug fiskvinnslufyrirtæki og er burðarásar í öllum þeim byggðum þar sem það er. Undir þessu kerfi hefur þessu fólki tekist að þroska og þróa gríðarlega öflug útgerðarfyrirtæki sem hafa burði í dag til þess að keppa á erlendum vettvangi, bæði með því að leita á erlend mið og einnig með því að hasla sér völl í útgerð og fiskvinnslu erlendis sem er náttúrlega mjög farsæl þróun fyrir íslenska hagsmuni. (Gripið fram í: Skilar það sér hingað inn?) Það skilar sér að sjálfsögðu í kassann til Íslands. Það eru fjölmargir Íslendingar sem starfa við það að reka erlend fiskvinnslufyrirtæki sem eru í eigu íslenskra útgerðaraðila. Auðvitað ganga þau fyrirtæki misjafnlega, hv. þm., en það er mjög dýrmæt reynsla og það hefur verið sóst eftir því að íslenskir útgerðarmenn og fiskverkendur miðluðu af reynslu sinni með því að reka fyrirtæki, bæði úti í Evrópu og víða annars staðar.

Þannig yrði þessari farsælu þróun sem hefur náðst í gegnum kvótakerfið kastað fyrir róða í einu vetfangi ef slíkar hugmyndir næðu fram að ganga eins og hér eru bornar fram.

Það er að sjálfsögðu margt sem hefur því miður farið aflaga í kvótakerfinu. Ég vona að okkur takist að laga það. Það viðurkennist alveg fúslega að kvótakerfið hefur verið rekið með miklum skrykkjum alveg frá því það var sett á 1984, m.a. vegna þess að við höfum ekki náð að stjórna veiðunum eins og ætlast var til. Við höfum ekki ráðið við brottkastið eins og til stóð og okkur hefur heldur ekki í raun tekist alveg að halda afkastagetu flotans í skefjum. En það er út af alls konar glufum í kerfinu sem verið er að reyna að loka núna. Loksins, eftir nærri 20 ár, er verið að reyna að loka síðustu glufunni. En það er ekki þar með sagt, herra forseti, að kerfið hafi ekki fleiri kosti en galla. Sá galli sem hefur fyrst og fremst trónað upp úr núna er brottkast á afla og í því tilliti tel ég að sjómenn þurfi að líta æðimikið í eigin barm. Það er alveg forkastanlegt ef öll sú sóun er í raun staðreynd eins og sjómenn segja sjálfir. Ég þekki það að sjálfsögðu, eins og ég hef margoft sagt hér inni, að brottkast hefur tíðkast mjög lengi en það hefur aldrei verið í þeim gríðarlega mæli sem verið er að tala um, og það eru engir aðrir en sjómenn sem geta komið í veg fyrir það.

Það er ýmislegt annað sem hefur því miður ruggað þessum báti óþarflega mikið í kringum kvótakerfið, og það var eins og þegar ákveðið var að veðsetja aflaheimildir. Það var þessi hávirðulega stofnun, Alþingi, sem ákvað það 1996, ef ég man rétt, að aflaheimildir með skipum væru veðsetjanlegar. Það er ástæðan fyrir því að skuldir útgerðarinnar ruku upp úr öllu valdi. Það er ekki kvótakerfinu að kenna heldur var það þessu eina ákvæði að kenna, að veðsetning aflaheimilda var heimiluð.

Ég lít svo á að þar séu menn þegar komnir í efsta þrep og að ekki verði meira veðsett en þegar hefur verið gert. Núverandi veðsetning veldur því samt að ekki er hægt að hrófla við þessu kerfi, og alls ekki á 10 árum eins og hv. flutningsmenn eru að leggja til. Veðsetningarnar sem hvíla þegar á flotanum eru flestar frá svona 10 og upp í 20--30 ár og því engin leið að hugsa sér neina afskriftaleið á skemmri tíma nema þá að borga skaðabætur. Ég hef ekki trú á því að þjóðarbúið hafi efni á því fyrir utan þann skaða sem þjóðin mun hljóta við það að þurfa að búa við það kerfi sem hér er verið að leggja til.

Herra forseti. Hér hefur verið rætt um ýmsa heiðursmenn, m.a. kom hér forseti þingsins og ræddi um mikla útgerðarmenn af Vestfjörðum og taldi að þeir ættu ekki skilið að vera kallaðir einhverjir sægreifar. Ég get alveg tekið heils hugar undir það, sérstaklega varðandi frænda minn, Jóakim Pálsson heitinn, en hann og fleiri útgerðarmenn á Vestfjörðum, sennilega flestir útgerðarmenn, höfðu mikinn metnað, greiddu reikninga sína með skilum, höfðu gott samband við sjómenn sína og lögðu nótt við dag til þess að tryggja sínar byggðir. Þessir menn höfðu miklar rætur til byggða sinna og þeir fylgdu þróun, þessir aldamótamenn sem voru aldir upp á litlum skipum og þráðu það að sjá sína sjómenn á stórum og traustum skipum sem gætu róið út í hvaða veðri sem væri og mennirnir kæmu samt heilir í land eftir hverja veiðiferð. Ég held að þetta hafi blundað í öllum þessum miklu útgerðar- og framkvæmdamönnum. Þess vegna fylgdu allir þessir aðilar því á sínum tíma að fara af vertíðarbátunum og á togarana. Flestir þessara manna eða margir þeirra voru á lífi þegar kom að því að setja á kvótakerfið og þeir samþykktu það einnig, ekki til þess að ögra byggð í landinu, öðru nær, heldur til þess að tryggja hag þessara útgerða sem hafa þó verið byggðar upp, einmitt í kringum fyrirtæki úti á landi.

Það eru einmitt ræturnar í kringum þessi fyrirtæki sem hafa haldið skipunum og þessari vinnu með þeim hætti sem nú er, og er enn. Og ég held að með því kerfi sem verið er að boða hér slíti menn upp allar þessar rætur. Menn slíta upp allar þær rætur sem tengjast byggðum og landi og skapa ekkert annað en glundroða, því miður, með þessum tillögum. Ég legg því til að menn átti sig á þessu þegar málið kemur í nefnd, a.m.k. þeim álitamálum sem hér hafa verið talin upp.