Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:28:26 (642)

2001-10-16 18:28:26# 127. lþ. 11.5 fundur 3. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflahlutdeilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:28]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Karl V. Matthíasson segir að það sé einungis verið að áfellast kerfið en ekki þá menn sem hófu þetta ævintýri, útgerðarævintýri. Eins og ég sagði áðan samþykktu þessir miklu höfðingjar og lögðu sumir hverjir til það kvótakerfi sem við erum að vinna við í dag.

Þó svo að fyrningin renni nú til einhverra sem vilja kaupa, þó svo að hún geri það þá verður þetta frekar spurning um það hverjir verði eftir til að kaupa. Ég er ekki mjög sannfærður um að í því óvissa útgerðarfyrirkomulagi og því umhverfi sem menn þurfa að búa við undir þessum sífelldu uppboðum, hafi nokkur áhuga á því að setja peningana sína í slíkan rekstur því að fjárfestingin getur verið einskis virði á morgun eins og ég var að tala um áðan.

Ég held að hv. þm. geri sér ekki grein fyrir því hvað er að gerast með þessu. Ég efast ekkert um að menn séu að reyna að gera sitt besta til þess að finna eitthvert annað kerfi. En því miður gera þeir sér ekki grein fyrir afleiðingunum, herra forseti. Ég vil að endingu skora á hv. flutningsmenn að skoða þetta mjög rækilega og ræða við útgerðarmenn um hvað þetta geti haft í för með sér, ef af verður, því það er ekkert gaman að því að sitja uppi með tillögu í farteskinu það sem eftir er ævinnar þar sem verið er í rauninni að leggja til að leggja núverandi útgerðarform í rúst.