Fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu

Þriðjudaginn 16. október 2001, kl. 18:49:11 (646)

2001-10-16 18:49:11# 127. lþ. 11.6 fundur 4. mál: #A fjárhagslegur aðskilnaður útgerðar og fiskvinnslu# þál., Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 127. lþ.

[18:49]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. sjútvrh. vil ég segja að þessi tillaga setur ekki það skilyrði að útgerð geti ekki keypt eða fiskvinnsla geti ekki keypt afla af útgerð þar sem eignaraðilar eru þeir sömu. Hún kveður hins vegar alveg skýrt á um fjárhagslegan aðskilnað veiðanna og vinnslunnar.

Við sem flytjum þessa tillögu teljum hins vegar mikilvægt að koma á eðlilegum viðskiptaháttum á fiskmarkaði og að fiskmarkaðurinn kæmi hér mjög inn í verðmyndunina. Tillagan kveður skýrt á um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu en festir það í sjálfu sér ekki niður að allur afli skuli fara um fiskmarkaðinn. Við teljum hins vegar að breytingin mundi leiða til þess fyrr en seinna.

Ég gat þess í framsögu minni að ég væri þeirrar skoðunar að það ætti að láta fiskmarkaðina sjá um verðmyndun á afla og það mundi verða þjóðinni til hagsbóta, það mundi auka verðmæti sjávarfangsins og skapa mikla atvinnu. Ég er alveg sannfærður um það. Í dag eru mörg fyrirtæki vítt og breitt um landið, stór og smá, að kaupa afla á fiskmarkaði, í raun við allt of lítið framboð. Það þekkist að menn á Vestfjörðum kaupi steinbít austur á Hornafirði, keyri hann til Ísafjarðar og vinni hann þar. Alveg á sama hátt og fiskur fer frá Norðurlandi og hingað til Reykjavíkur, nú eða þá af Suðurnesjum og norður í land. Margar fiskvinnslur hafa aðlagað sig því að starfa á markaðnum að stórum hluta og sumar að öllu leyti og hafa starfað þar árum saman. Þarf ekki annað en ræða við þá fiskvinnslumenn sem eru í Samtökum fiskvinnslustöðva án útgerðar, sem kaupa svo til allt sitt sjávarfang eða langmest af öllu sínu sjávarfangi á fiskmörkuðum og hafa staðið sig frábærlega í því að ná háu verði.

Að öllu samanlögðu tel ég að þessi tillaga gæti orðið til að flýta slíkri þróun og ég tel það æskilegt. Þó að þessi tillaga lögskipi ekki að menn verði að selja aflann í gegnum markað þá gerir hún ráð fyrir því að það sé algjör fjárhagslegur aðskilnaður milli veiða og vinnslu. Það er vissulega þekkt form í löndunum í kringum okkur og hefur ekki valdið þeim þjóðum skaða að séð verði, frekar er að það hafi lyft upp aflaverðmæti.