Stækkun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:36:12 (649)

2001-10-17 13:36:12# 127. lþ. 13.1 fundur 82. mál: #A stækkun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fyrirspurn til utanrrh. um hvaða afleiðingar stækkun Evrópusambandsins hafi fyrir hagsmuni Íslands í Evrópu. Þessi fyrirspurn skarast að nokkru við fyrirspurn númer tvö á dagskrá þessa fundar sem er um endurskoðun á EES-samningnum og vænti ég þess að hæstv. utanrrh. gefist möguleiki á að koma því sem máli skiptir að í svörum við þessum tveimur spurningum.

Þessi spurning mín er líka afskaplega opin og það er viljandi. Ég vænti þess að ráðherra fari yfir þýðingarmestu þætti stækkunar og áhrif á hagsmuni okkar í Evrópu. Stækkun Evrópusambandsins stendur fyrir dyrum. Það á að ljúka aðildarsamningum við þau lönd sem verða tekin inn fyrir árslok 2002. Tólf lönd eru í biðröðinni og vilja inn, en eins og við vitum komast þau ekki öll að.

Íslensk stjórnvöld hafa stutt stækkunina eindregið og tek ég undir þá afstöðu. Löndin sem sækja um telja aðildina grundvallaratriði varðandi uppbyggingu heima fyrir og sem friðar- og öryggismál. En Ísland verður af markaðsmöguleikum sem nú eru fyrir hendi við mörg umsóknarríkin samkvæmt fríverslunarsamningum EFTA. Fríverslunarsamningar hafa veitt okkur betri markaðsaðgang í löndum sem nú sækja inn í Evrópusambandið en sambandið sjálft hefur haft við þau. Nú munu þau fá bættan aðgang að mörkuðum Íslands meðan við missum samninga og þurfum að fara að greiða tolla fyrir sumar afurðir í samræmi við bókun 9 í EES-samningnum.

Noregur hefur hins vegar byggt upp markað fyrir marga milljarða, 10 milljarða, ef ég man rétt og fær þar með tilsvarandi kvóta sem nú mun gilda inn á allt Evrópusambandssvæðið. Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir okkur? Sömuleiðis skiptir máli hvernig ný tækifæri verða til í viðskiptum og fjárfestingum á hinu stækkaða svæði og hvort þau kalla á úrbætur hjá okkur, t.d. í lagasetningu.

Svo er það Myntbandalagið. Á athyglisverðri ráðstefnu Samtaka iðnaðarins nýverið um Evrópusambandið og evruaðild talaði meðal annarra dr. Sixten Korkman, framkvæmdastjóri á sviði efnahags- og peningamála hjá ráðherraráði Evrópusambandsins. Hann sagði evruna hafa útrýmt óstöðugleika gengis á evrusvæðinu sem öll Evrópa nyti góðs af. Hann sagði líka að auk sameiginlegrar myntar fengist Evrópusambandið við tvö krefjandi viðfangsefni, annars vegar stækkunarferlið sem mundi auka landfræðilegt flatarmál, mannfjölda, efnahagsumsvif og fjölda landa innan Evrópusambandsins, en hitt ferlið væri að ná fram stofnanalegum umbótum á eðli og gerð Evrópusambandskerfisins til að styrkja ábyrgð þess. Hvaða áhrif, herra forseti, hefur þessi þróun á stöðu okkar Íslendinga?